29. nóvember
Viktoría Johnsen á afmæli í dag. Hún er fædd 1993 og er því 14 ára gömul. Gunnar Friðriksson afi var fæddur þennan dag árið 1913 og hann hefði því orðið 94. ára í dag hefði hann lifað. Það þarf ekki að taka það fram að björgunarskipið Gunnar Friðriksson frá Ísafirði er nefnt eftir Gunnari Friðrikssyni frá Látrum í Aðalvík.
Gunnar fæddist 29. nóvember 1913, að Látrum í Aðalvík. Foreldrar hans voru hjónin Friðrik Magnússon, útvegsbóndi og Rannveig Ásgeirsdóttir. Gunnar ólst upp í Aðalvík en sótti barnaskóla, m.a. á Ísafirði, einn vetur og gagnfræðanám og útskrifaðist úr gagnfræðaskóla á Ísafirði 1932. Sama ár hóf hann útgerð og fiskvinnslu í heimabyggð sinni í Aðalvík aðeins 18 ára gamall. Rak hann þar útgerð og stundaði sjómennsku til ársins 1935. Gunnar stundaði sjómennsku, verslunar- og verksmiðjustörf í Djúpuvík og Reykjavík til 1940 er hann stofnaði ásamt Sæmundi Stefánssyni eigið innflutningsfyrirtæki, Vélasöluna hf. í Reykjavík. Rak hann það fyrirtæki í yfir 60 ár. Upp úr 1950 hóf Gunnar undirbúning að innflutningi á fiskiskipum fyrir útgerðarmenn og jukust smám saman umsvif hans á því sviði. Stóð hann að innflutningi mikils fjölda skipa um árabil. Þá átti Gunnar um skeið hlut í útgerðarfyrirtækjum. Gunnar lét sig slysavarnamál miklu varða. Hóf hann störf á þeim vettvangi um 1950 og var kjörinn í aðalstjórn Slysavarnafélags Íslands 1956. Var Gunnar rúman aldarfjórðung í stjórn SVFÍ og var hann forseti félagsins í 22 ár, frá árinu 1960 til 1982. Gunnar vann að ýmsum öðrum félagsmálum allt frá unglingsárum og átti sæti í stjórn fjölda félaga og samtaka. 17 ára gamall var hann t.d. fulltrúi á þingi Alþýðusambands Íslands. Árið 1940 kvæntist Gunnar Unni Halldórsdóttur frá Sandbrekku í Hjaltastaðaþinghá. Unnur lést árið 1999. Eignuðust þau þrjú börn, Friðrik, Rúnar og Guðrúnu, en áður átti Gunnar einn son, Sæmund.
Myndin af Gunnari afa og Gísla Halldórssyni er sennilega ein síðasta mynd sem tekin var af honum, en myndin var tekin á Kaffi París í nóvember árið 2004. Þar sátu þessar öldnu kempur löngum stundum og ræddu gamla tíma. Á veggnum á kaffistofunni var síðan hengt upp mynd af þessum öldnu fastakúnnum, en eftir að staðnum var breytt virðist enginn vita hvað varð um myndina góðu
0 Comments:
Post a Comment
<< Home