Wednesday, December 12, 2007

Landeyjarnar

Frábært framtak. Núna getur maður farið í Landeyjarnar án þess að rústa bílnum sínum. Á Krossi í A-Landeyjum skammt frá Bakkafjöru er nefnilega gömul falleg kirkja og á lóðinni er reiturinn sem gamla húsið langömmu og langafa stóð. Ég var nú reyndar ekki fæddur þegar gamla húsið var rifið, en fjölskyldan reynir að fara í pílagrímsferðir að Krossi, minnsta kosti einu sinni á ári.

Afi minn hét Guðni Gíslason og var af hinu svokallaða Sleifarkyni, kennt við bæinn Sleif í sveitinni. Af þeirri ætt eru m.a nokkrir frægir Íslendingar, en sagt var að Gísli faðir Guðna hefði verið rangfeðraður. Afi Gísla langafa var einn af voldugustu mönnnum nítjándu aldarinnar og sagður bera ættanafnið Thorarensen, en gamlar frænkur þora ekki enn að ganga í þetta mál, enda sennilega of seint. Þar með á maður að öllum líkindum fullt af náskyldum ættingjum, sem komnir eru af hinum þekkta embættismanni, en það er hvergi skráð, m.a í Íslendingabók.

lang-amma mín Helga María Þorbergsdóttir var líka rangfeðruð, en pabbi hennar var líka mjög þekktur á sinni tíð vegna athafnarsemi sinnar. Ekki er heldur þorandi að nafngreina hann vegna þess að hann á líka mikið af afkomendum, sem yrðu kannski ekki ánægðir að frétta þetta á einhverju bloggi út í bæ. Sagt var að Þorbergur, sem dó árið sem langamma fæddist, hafi ekki verið faðir hennar. Langafi og langamma voru bláfátækir leiguliðar, sem eignuðust fjögur börn, þrjár stelpur og einn strák. Vegna mikillar fátæktar var bara hægt að senda elsta soninn til mennta, en seinna varð hann (Þórarinn Guðnason) mjög þekktur skurðlæknir og bókaþýðandi. Þýddi m.a uppáhaldsbókina mína Manntafl, eftir Stefan Zweig.

Amma mín, Bergþóra og systur hennar Þórhalla og Guðrún voru líka búnar miklum mannkostum, en amma mín starfaði mikið við aðhlynningu eftir að hún flutti til Reykjavíkur með afa mínum Sigurði Guðmundsyni barnaskólakennara. Afi var Skaftfellingur í húð og hár, fæddur í Vík í Mýrdal, en kenndi lengi vel að Seljalandi og Skógum undir Eyjafjöllum. Þessir staðir eru líka helgir í huga fjölskyldunnar, þs, Skógar, Seljaland og Vík. Sjálfur hef ég ekki farið í mörg ár að Krossi, en var á leiðinni þangað um verslunarmannahelgina, þegar bíllinn næstum bræddi aftur úr sér. Nú voru góð ráð dýr, en við troðum okkur því öll inn í litla bílinn hennar mömmu og við komust á endanum á helgasta stað á Íslandi. Svo bauðst fjölskyldunni að byggja sumarbústað á lóðinni, af þáverandi landeigendum, en ekki nokkur maður í stórfjölskyldunni hafði áhuga eða getu til að standa í svoleiðis vitleysu fyrir c.a 20. árum. Nú er útlit fyrir að þetta svæði verði svakalega vinsælt og eftirsótt, en það er að sjálfsögðu allt of seint að fara að heimta skikann núna, enda allt aðrir eigendur held ég.

Þessi pistill er reyndar skrifaður til að losa um mikla ritstíflu, sem hefur verið að angra mig að undanförnu. Hef eiginlega engan áhuga á að blogga lengur, en þessi pistill ætti að losa um stífluna í bili.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home