Wednesday, December 12, 2007

4. daga veizla

Í húsinu á móti okkur var allt í einu slegið upp fjögra daga veislu, sem stóð allan daginn og langt fram á kvöld. Um sjöleitið alla dagana komu nokkrir munkar og kyrjuðu, en eftir það fóru gestir að streyma að með veitingar og á boðstólum var oft wiskey og bjór, en bjórinn var oftast af tegundinn Chang, en Shinga er ekki svo mikið drukkinn hér um slóðir. Einnig var Heinekenbjórinn til í miklu magni vegna þess að íbúi hússins er norskur sjómaður, Vidar rafeindavirki á stóru olíuflutiningskipi, sem kemur til Thailand sex sinnum á ári til að vera með fjölskyldu sinni. Mikið ljósa-show og tónlist kom frá húsinu, en einnig voru margir að spila í litlum hópum.

En samkvæmið kom því miður ekki til að góðu, því það hafði því miður orðið dauðsfall í fjölskyldunni og sonurinn á heimilinu Sai hafði veikst alvarlega sunnudaginn 4. nóvember og dó seinna sama dag. Upphafið mátti rekja til þess að laugardaginn 3. nóvember hittist öll stórfjölskyldan, meðal annars ungi maðurinn sem var að vinna í Kong Keng sem er í um hundrað kílómetra fjarlægð fra Wangsapung. Hann hitti þar fyrir fjölskyldu sína meðal annars Vidar mág sinn frá Noregi og konu hans, sem býr í Thailandi allt árið. Saman ætluðu þau nokkur saman að keyra um landið og fara m.a til Bangkok og Hua Hin. Allar fyrirætlanir breyttust að sjálfsögðu við þetta, en hópurinn hafði allur hist á laugardaginn og slegið var upp mikilli fjölskylduveislu, en sama dag komum við og heima í gamla húsinu á móti var líka haldin mikil fjölskylduveisla. Ungi maðurinn hafði víst drukkið of mikið í heimsókn sinni, en það kom í ljós að hann hefði verið á lyfjum frá lækni til að hætta að drekka, en sennilega hefur hann tekið inn Antapus og hugsanlega var það þess valdandi að daginn eftir fékk ungi maðurinn heilablóðfall og var keyrður á heimilisbílnum á spítalann í Wangsapung. Þar var enginn læknir, en hugsanlega hefði verið hægt að bjarga lífi hans með því að keyra hann beint á hátæknisjúkrahúsið í Loei, sem er einungis í 20 km. fjarlægð. Um það er ekki gott að segja.

Það voru auðvitað þung skref fyrir okkar að heimsækja þetta vinafólk okkar, en það var samt aðdáunarvert hvernig fólkið tókst á við þennan mikla harmleik og að tælenskum sið var slegið upp fjögra daga jarðarför, til að sem flestir vinir og velunnarar fjölskyldunnar ætti heimangengt. Norðmaðurinn Vidar bauð mér sérstaklega velkominn, en var auðvitað harmi sleginn eins og hinir fjölskyldumeðlimirnir.

Vidar kemur til Thailands sex sinnum á ári eins og áður hefur komið fram. Hann tekur mánaða túr á olíuflutningaskipinu, en stígur síðan upp í flugvél í heimabæ sínum í Noregi og flýgur beint til Amsterdam og þaðan beint til Bangkok, að hluta til á kostnað útgerðarinnar. Síðan leigir hann alltaf fyrsta flokks bílaleigubíl og heldur honum í þrjár vikur og skilar honum svo aftur í Bangkok. Vidar segir að það taki því ekki að kaupa bíl, hérna enda dvelji hann bara hálft árið í landinu. Þar að auki er hann vanur að ferðast mikið um, þannig að í hans tilfelli hentar best að leigja bíl í Bangkok og skila honum svo þrem vikum síðar. Þegar Vidar kemst á ellilaun ætlar hann loksins að byggja sér höll, fá sér Rottwailer og Dopermanhunda og vígvæða heimilið með rafmagnsgirðingu og skotvopnum. Ekki veitir af þegar menn bera ríkidæmið utan á sér. Sérstaklega í vaxtarlaginu.

Jarðneskar leifar Sæ voru settar í kistu, sem útbúin var sérstöku kælikerfi til að jarðneskar leifar hans væri hægt að geyma við húshita í fjóra daga. Vinir og vandamenn fengu síðan að kveðja hann hinstu kveðju alla fjóra dagana. Það var mjög sérkennileg tilfinning að mæti í kveðjuathöfnina til þessa vinafólk okkar, því við hliðina á glerlíkkistunni sátu flest kvöldin ættingjar og vinir og spiluðu á spil og drukku bjór og viskey, en það breytti því ekki að sorgin var mikil á heimilinu, þótt hefðir væru allt öðru vísi en maður sjálfur átti að venjast.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home