Monday, November 13, 2006

Skákborðið

Ég sit hér við skákborðið en engir eru mennirnir, því ég gleymdi þeim heima. En samt er alveg stórmerkilegt að hér skuli vera skákborð með 64 reitum til á næstum því hverju heimili. Þessi massífu útiborð eru hér mjög vinsæl, en síðan eru þau næstum alltaf skreytt með skákborði með 64 reitum í miðjunni, en ég hef samt í örfá skipti séð annað munstur. Þegar maður keyrir um bæinn þá standa þessi borð víða, en þau eru eins og áður sagði mjög massíf og þung til þess að menn fara ekki að stela þeim og þeim fylgja líka bekkir í stíl. En hér kann enginn að tefla og ég hef í raun ekki fengið neina skýringu á þessum vinsældum skákborðisins aðra en þá að þetta munstur þyki bara svo flott. Borðið mitt má reyndar muna sinn fífil fegri, en er samt ennþá tignarlegt. Vegna þess hversu hér eru mörg skákborð, þá datt mér það snjallræði í hug að hefja hér skáktrúboð, ekkert ósvipað og Hrafn Gunnlaugsson skákmógúll er að gera á Grænlandi og í Namibíu. Í þessu landi er talað um að 60 milljónir manna búi, en sennilega eru þeir tugum milljónum fleirri. Þarna væri mikill efniviður og í næstu nágrannalöndum er sennilega svipuð saga, því það væri hægt að vera með svipað trúboð í Laos og hinu stríðshrjáða Myanmar. En ég gæti ekki staðið í þessu einn, en kannski Hrafn vilji núna útvíkka starfsemina og færi sig yfir til asíu og til er ég að taka þátt í ævintýrinu. Hef ekkert annað að gera hérna, því ég er m.a hættur að drekka áfengi og var það mikið gæfuspor, þegar ég skrúfaði tappann á flöskuna. En það er samt oft notalegt að setjast á bekkinn á kvöldin með svaladrykk í annari við skákborðið, en enginn er andstæðingurinn. En maður veit þó aldrei. Hér gæti leynst einhver snillingurinn í næstu götu. Hver veit?

0 Comments:

Post a Comment

<< Home