Tuesday, April 17, 2007

Korter fyrir

Núna er gaman því bráðum koma kosningar. Kjósendur virðast hafa ótrúlega slæmt minni, því núna koma stjórnmálamennirnir korter fyrir kosningar og lofa öllu fögru t.d í húsnæðismálum, skattmálum og öðrum velferðarmálum. Sérstaklega stjórnarflokkarnir, sem hafa núna stjórnað í tólf ár saman, en hinn flokkurinn í sextán ár. Samt á núna að byrja á sama gamla söngnum.

Flott var hvernig mínir menn plötuðu öryrkja fyrir síðustu kosningar og sviku síðan allt korter eftir kosningar. Svo verða allir mjög undrandi daginn eftir kosningar þegar kjaradómur og kjaranefnd mun hækka laun æðstu embættismanna þjóðarinnar. Það er bara vitað því það gerist nær alltaf. Það er bara einn alvöru vinstri flokkur í kosningunum og hann heitir Sjálfstæðisflokkurinn. Hann hefur um langt skeið verið hreinræktaður vinstri og afturhaldsflokkur og hugnast mér það vel, því ég er mjög íhalds&afturhaldsamur í eðli mínu. En núna hefur Geirsklíkan tekið völdin í flokknum og bolað mínum mönnum frá. Davíð situr fúll upp í seðlabanka, Björn hefur barist við heilsuleysi og þessir menn hafa bolað Kjartani frænda út í horn. Meira að segja Hannes Hólmsteinn er hættur að láta sig hverfa fyrir kosningar, en hann lét sig iðulega hverfa eða var sendur í frí til að flokkurinn gæti litið út fyrir að vera miðju og vinstri flokkur fyrir kosningar. En núna gerist það ekki þörf, því með nýju valdaránklíkunni í flokknum með þá Geir Haarde, Villa Vill borgarstjóra og Guðlaug Þór, þá er minn flokkur orðinn einum of vinstrisinnaður. Kjósum því flokk allra stétta til valda fjögur ár í viðbót. Íhaldið er eini alvöru vinstri flokkurinn í dag. Ég treysti honum best til að forða okkur frá því að lenda í EB, vernda krónuna og efla stóryðju. Á tíma Davíðs bannaði hann okkur Sjálfstæðismönnum að tala um óþægileg mál eins og EB og evru, en ég óttast að aginn minnki í flokknum og litlir smákóngar lifni aftur við í flokknum vegna agaleysis, en Davíð tókst að losa sig við alla slíka á sínum tíma. Ég vona því að Geir haldi við sama hræðsluandrúmslofti í flokknum til að forða okkur frá evrópurugli. XD.IS

Að sjálfsögðu ætla ég að kjósa ihaldið, en verð samt að viðurkenna að fyrir nokkrum árum skildi ég aldrei hvers vegna bæjarróninn og öryrkinn væru að kjósa þennan flokk, sem virtist bara vera umhugsað um að vera í hagsmunagærslu fyrir fjármagnseigendur og sægreifa. Hvað átti fólk með 90.000 krónur á mánuði, sameiginlegt með íhaldinu. Skil það núna hins vegar þegar ég er sjálfur orðinn ríkur. Eða er ég kannski orðinn ríkur?!? XD.IS

Svo skildi maður aldrei þetta hatur hans Davíð míns á nýríka liðinu eins og þeim góða manni Jóni Ólafssyni og Baugsfeðgum. Hvað átti þetta eiginlega þýða að holdgefing frjálshyggjunnar og afsprengi einstaklingsframtaksins, Jón Bæjó og Jón Ásgeir væru lagðir í einelti af mínum mönnum. Kannski skilur maður þetta seinna, þegar menn fara að opna sig meira. Og ég vil óska Birni Bjarnasyni góðs bata, en ég er búinn að fyrirgefa honum smá miskilning. Þannig var að ég mætti Birni iðulega í Sundhöllinni á morgnana, en hann var sá eini af morgungestum sundhallarinnar sem aldrei kastaði kveðju á bloggarann, þrátt fyrir að bloggarinn reyndi að heilsa meistaranum. En núna skil ég hvað var í gangi. Björn var auðvitað alltaf með BAUG fyrir augunum og tók því ekki eftir bloggaranum, þrátt fyrir að bloggarinn sé vel þéttur á velli. XD.IS

Annað sem maður skildi ekki var hið fræga gjafakvótakerfi, sem 80% af alþingismönnum vorum standa nú vörð um. Bloggarinn hefur hitt fólk í sjálfsvígshættu vegna þess að það hefur farið illa út úr þessu "hræðilega" kerfi. En síðan fór bloggarinn að hugsa. Myndi hann vilja láta taka af sér það sem að honum væri rétt. Myndi hann vilja að einn daginn kæmi einhver frá hinu opinbera og færi að rukka hann um vaxtabætur eða barnabætur sem hann væri þegar búinn að eyða. Nei aldrei og þess þá heldur ef taka ætti af honum eign sem metin væri á milljónir eða milljarða og þar fyrir utan er kvótagróðinn löngu kominn úr eigu upphaflegu eigenda, í hendur nýrra aðila. Margir alþingismenn verja kerfið að sjálfsögðu vegna vina og fjölskyldutengsla, m.a forsætisráðherrann fyrrverandi Halldór Ásgríms og Ingibjörg Sólrún. Meira að segja Skallagrímur Sigfússon er orðinn varðhundur kerfisins vegna fjölskyldutengsla og Frjálslyndi flokkurinn er að gefast upp á að raupa um þetta rugl, enda er sá flokkur núna farinn á fullt í andóf gegn útlendingum með lýðskrumi og hatursáróðri. Ekki miskilja mig, því ég er alveg sammála þeim að ekki meigi galopna landið fyrir öllum, en það er hins vegar orðræða þeirra sem fer fyrir brjóstið á mér t.d á Útvarpi Sögu, sem sýnir að þeir eru að höfða til fólks með hræðsluáróðri. XD.IS

0 Comments:

Post a Comment

<< Home