Thursday, May 24, 2007

Baugs-stjórnin

Ég verð að viðurkenna að mér finnst nafnið sem Framsóknarmenn gáfu hugsanlegri stjórn Samfó&íhalds alveg bráðfyndið. Í fyrsta lagi vegna þess að Framsóknarmenn voru gífurlega tapsárir og gera sig að algerum fíflum með þessum barnaskap. Í öðru lagi vegna þess að einn ráðherra í fyrirhugaðri Baugstjórn mun heita Björn Bjarnason Baugsráðherrann sjálfur. Það verður erfitt fyrir forustu flokksins að ganga fram hjá Birni því Björn er síðasti Móhíkaninn í Davíðsarminum, en ekki má styggja leifarnar af þeim armi, þótt maðurinn hafi fallið í prófkjöri gegn Guðlaugi Þór og almennir flokksmenn strikað hann út í massavís vegna þess að maðurinn er alger tímaskekkja. Hann er nú í þriðja sæti í Reykjavík suður, en verður eflaust ráðherra í Baugstjórninni alræmdu.

Ég er samt ekki viss um að þessi stjórn verði að veruleika ef Davíð væri nú froðufellandi af reiði upp í Seðlabanka. Það er nefnilega Davíðsarmurinn sem stundaði fullorðins einelti gegn einstaklingum og fyrirtækjum m.a Samfylkingunni og Ingibjörgu sérstaklega og kaupsýslumönnum eins og Jóni Ólafssyni sem þurfti að flýja landi og Baugsfjölskyldunni. Þessir menn muna aldrei sætta sig við Ingibjörgu og Samfylkinguna, en því má ekki gleyma að þessir menn hafa lítil sem engin áhrif í flokknum lengur fyrir utan Björn Bjarnason. Davíð er innmúraður í Seðlabankanum, Jón Steinar í þagnarbindindi í hæstarétti, Kjartan frændi var settur af sem framkvæmdastjóri flokksins en Styrmir Gunnarsson er þó ennþá á Mogganum. Morgunblaðið er því ennþá mjög tortryggið gagnvart þessu samstarfi, eins og kom skýrt fram í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins á sunnudaginn. Þessir menn eru ennþá lifandi og það er þess vegna sem maður hafði skilning á auglýsingu eins og þeirri sem Jóhannes í Bónus kom með rétt fyrir kosningar. Auglýsingin leiddi m.a til þess að Björn Bjarna þurfti því miður að fresta ráðningu í embætti ríkissaksóknara, en verðlauna átti Jón H. B fyrir dygga liðveislu í Baugsmálinu.

Ef þessi stjórn verður ekki að veruleika fáum við vonandi að sjá langþráða vinstri stjórn, en því miður féll stjórnin ekki í kosningunum og því verðum við "jafnaðarmenn" að horfa á þetta stjórnarsamstarf með jákvæðum augum. Íhaldið hefur fengið allt aðra ásýnd og ráðandi armur flokksins stundar ekki barnalegt einelti eins og forðum. Sagt er að það fari vel á með Ingibjörgu og varaformanninum Þorgerði Katrínu. Stjórnin mun þá lýta svona út að mínu mati.

Geir Haarde forsætisráðherra, Kristján Júlíusson samgönguráðherra, Bjarni Ben dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín sjávarútvegsráðherra & Árni Matt fjármálaráðherra .

Ingibjörg Sólrún utanríkisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir heilbrigðisráðherra, Össur Skarphéðinsson iðnaðar&viðskiptaráðherra, Jón Baldvin landbúnaðarráðherra, Kristján Möller félagsmálaráðherra & Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra.

Eflaust gleymir maður einhverjum ráðuneytum, en ég tel að hvor flokkur fái sex ráðherra og nokkrar hrókeringar verði eftir c.a tvö ár, þegar Jóhanna Sig og Össur muni víkja fyrir yngra fólki eins og Ágúst Ólafi og Björgvin Sigurðssyni og Björn Bjarna víki fyrir Guðlaugi Þór. Samfylkingin mun taka einn mann af "götunni" eins og Jón Sigurðsson eða Jón Baldvin.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home