Saturday, May 05, 2007

Glitnir

Glitnir er minn viðskiptabanki. Ég byrjaði reyndar í gamla Alþýðubankanum á Suðurlandsbraut, sem seinna gekk inn í Íslandsbanka, en heitir í dag Glitnir. Ég kýs hins vegar að kalla bankann minn Íslandsbanka áfram og kæri mig ekki um að nota þetta Glitnis nafn. Græðgisvæðing samtímans leiðir til þess að flest fyritæki skipta um nafn til að ganga í augun á erlendum viðskiptavinum. Af hverju mega þessi fyrirtæki ekki heita góðu nöfnum eins og Búnaðarbankinn, Esso, Íslandsbanki osf? Þetta er auðvitað algerlega óþolandi. Eins og áður sagði byrjaði ég í gamla Alþýðubankanum á Suðurlandsbraut, þegar allir starfsmenn Verkamannabústaða í Reykjavík var þröngvað til að geyma launin sín í bankanum. Ég hef haldið tryggð við þetta útibú 526 síðan þótt að bankinn hafi tvívegis skipt um nafn á tímabilinu. Um nokkra ára skeið fór ég að skipta við Spron, en kom sem betur fer alfarinn heim fyrir nokkrum árum og haldið mig við útibúið á Suðurlandsbraut. Ég rálegg fólki eindregið að segja skilið við Spron. Þeir eru fínir meðan vel gengur, en þegar harðnar á dalnum hjá einstaklingum er Spron skítafyrirtæki. Það voru þeir sem plötuðu fult af viðskiptavinum til að fá sér VELTIKORT. Hundruðir manna fóru hreinlega á hausinn eða eru ennþá að berjast í bökkum eftir þann glaðning. Bloggarinn fékk m.a sent veltikort á sínum tíma og var mörg ár að vinna sig út úr vandræðunum. Sumir félagar bloggarans hafa hins vegar aldrei komist út úr vítahringnum. En Spron voru hins vegar góðir við mig um daginn þegar þeir gáfu Sigurði Rúnari litla disk með Eiríki Haukssyni. Kannski eru þeir ekki svo slæmir eftir allt saman.

En Glitnir komu hins vegar ómerkilega fram við Bjarna Ármannsson, þegar þeir sögðu honum upp störfum og réðu hálgerðann ungling í starfið. Eftir að eignarhald á bankanum breyttist varð Bjarni að víkja og nýju eigendurnir hafa bannað Bjarna að vinna við aðrar bankastofnanir næstu misserinn og hann fær bara smánarskaðabæur sem duga varla fyrir salti í grautinn. Bjarni hefur fyrir mörgum munnum að sjá, en hann fær bara skítnar 800 milljónir auk þess lítilræðis sem hann hafði hagnast áður á hlutabréfakaupum. Það er auðvitað algert hneyksli að borga manninum ekki almennilegar skaðabætur, því ekki hleypur þessi maður í nýja vinnu. Ég hef því ákveðið að hefja söfnun til styrktar Bjarna svo hann eigi fyrir salti i í grautinn. Ég finn virkilega til með honum. Ég vona líka svo sannarlega að þegar minn gamli vinnufélagi í unglingavinnuni, Sigurjón Árnason hættir hjá Landsbankanum þá muni Björgúlfsfeðgar koma betur fram við hann en hrottarnir hjá Glitni komu fram við Bjarna. Það er lágmarkskrafa að þessir menn fái góða starfslokasamninga, en ekki einhverja smáaura eins og rétt var að Bjarna.

Og annað tengt þessu. Fyrir um áratug prófaði ég að æfa karate í nokkra mánuði hjá Karatefélagi Reykjavíkur. Þar æfði ég meðal annars með Guðmundi Helgasyni gömlum lyftingamanni og nokkrum fleirri góðum mönnum og konum. Þeir sem voru að þjálfa okkur voru meðal annars Atli Erlendsson, Grétar Haraldsson og bróðir hans Vilhjálmur, sem þá var bara unglingur. Einnig var þarna ungur maður um tvítugt, sem mig minnir að hafi verið að byrja í viðskiptafræði í háskólanum. Sá ungi maður hét Lárus og var bara ágætis náungi, en maður tók eftir því að hann var að byrja að grána í vöngum svo eftir var tekið. Lárus þessi stjórnaði oft æfingunum hjá okkur þegar meistararnir voru fjarverandi. Ég var alveg búinn að gleyma þessum tíma, þegar ég sá rétt rúmlega þrítugan gráhærðan mann í sjónvarpinu í vikunni, en hann var í viðtali í tilefni þess að hann hafði tekið við aðalbankastjórastöðu hjá Glitni. Eitthvað kannaðist ég við andlitið á þeim gráhærða og þegar að viðmælandi hans spurði um áhugamál, sagði nýráðni bankastjórinn að hann hefði stundað karate í mörg ár. Aðalbankastóri minn er því gamli karatekennarinn minn.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home