Ólafur Hraunberg sextugur
Upphaflega ætlaði ég að skrifa tvær línur um árangur Stefáns Kristjánssonar, en hann náði sínum fyrsta stórmeistaraáfanga í skák fyrir nokkrum dögum og þann fyrsta, sem íslenskur skákmaður nær í rúmlega áratug, eða síðan Þröstur Þórhallsson náði sínum lokaáfanga. Vonandi verður þetta til þess að seinni fjórmenningaklíkan nái að elta hann, eins og gerðist fyrir tuttugu árum þegar Jóhann Hjartarson, Margeir, Jón L og Helgi Ólafsson röðuðu inn áföngunum. Núna tæplega tuttugu árum seinna gætu þeir Stefán Kristjánsson, Jón Viktor, Bragi/Björn Þofinnssynir eða Arnar Gunnarsson leikið sama leikinn. Ég man alltaf þegar ég tapaði fyrir Stefáni Kristjánssyni í Deildarkeppninni á Akureyri fyrir mörgum árum. Ég var þá á fyrsta borði fyrir Skagann, en hann var fyrir unglingasveit TR. Man ekki hvað hann var gamall þá, en hann var mjög ungur, eða einungis 12-14 ára. Ég var auðvitað mjög spældur, en lét á engu bera held ég, en spáði honum í huganum glæsilegri framtíð, sem er nú að rætast. Vonandi nær hann að slá í gegn enda drengur góður. Ég hef reyndar náð að vinna hann nokkrum sinnum í bullet (1. minútu skákum) á ICC (þar heirir hann Champbuster) og hef ég seifað þeim "glæsiskákum", en ég á ekki mikinn séns í hann, ef tímamörkin yrðu lengd. En hver er þessi Ólafur Hraunberg sem er fyrirsögn greinarinnar? Ólafur Hraunberg Ólafsson er ástæða þessa alls. Hann er sennilega guðfaðir skáksprengingarinnar á Íslandi. Hann vann í mörg ár sleitulaust að unglingastarfi í TR og heimili hans stóð opið fyrir unga stráka um helgar. Ég sjálfur kom oft á heimili hans á Rauðarárstígnum þegar ég var 12-15 ára gamall. Þar hitti maður oft unga og efnilega félaga sína eins og Arnór Björnsson, Karl Þorsteins, Jóhann Hjartarsson, Árni Ármann, Elvar Guðmundss, Jóhannes Ágústsson, Lárus Jó, Pál Þórhallss, Hrafn Loftsson, Sveinssonbræður þá Svein og Ríkharð, svo fáeinir séu taldir. Ég veit líka að ungu strákarinir fyrrnefndu (Stefán, Jón VIktor og co) voru líka heimalingar hjá honum. Óli réð á sínum tíma öllu í skákhreyfingunni bak við tjöldin, en var seinna bolað frá, en þá sögu kann ég því miður ekki. Hann gat oft verið þver og einsýnn og þeir sem stóðu honum næstir voru kallaði "Ólaf H klíkan" og það gat verið betra að vera í þeim flokki. Oft á aðalfundum Skáksambandsins eða TR voru oft fulltrúar ungu kynslóðarinnar með atkvæðisrétt, en þeim nægði þá alltaf bara að horfa á hvað Óli kaus (kosið var með handaruppréttingu) og þá vissu þeir hvað þeim bar að kjósa. Hann bar oftast hag unglinga TR fyrir brjósti, en hann var ætíð góður félagi/fararstjóri og ég fór með honum fjórar skemmtilegar ferðir, tvær þar sem hann var farastjóri fyrir sigursælt lið Álftamýraskóla (seinna skiptið fór Ragnar Júlíusson skólastjóri líka með), til Finnland/Copenhagen 1979, Stavanger/London 1980 og tvisvar fórum við með unglingalandsliðinu til New York, 1979 og 1981. Eftir að ég skipti yfir í Taflfélag Seltjarnarnes 17. ára gamall datt ég sjálfkrafa útúr klíkunni og þar með skákinni. Ég var á Ölver áðan að horfa á Man. City tapa fyrir Oldham. Þar var mættur ágætur félagi Eyjólfur Bergþórsson (OLLI, skákmaður, heildsali, fótboltagúrú og Frammari, en hann var með Óla H í stjórn TR fyrir tuttugu og eitthvað árum), en hann var einmitt á leið í afmæli til Óla og hafði meðferðis dýrindis koníaksflösku, sem hann ætlar að færa Hraunberg í kvöld. Þangað til mun Olli sitja á Ölver og skola niður nokkrum bjórum. Hann sagði að Skáksamband Ísland héldi hófið og hæfist það kl. 8.00 í kvöld. Hann sagði mér að ætlast væri til að öll gömlu "kiddin" ættu að láta sjá sig. Ég heyrði síðan í Halla Baldurss hjá skáksambandinu, en hann ætlar einmitt að skella sér. Já, ég er bara að hugsa um að skella mér líka. Þá verð ég bara boðflenna, ekkert mál. Hvað gerir maður ekki fyrir bjórinn!
0 Comments:
Post a Comment
<< Home