Mó Bing
Ég veit ekki hvað það er en ég hef oft laðast að hundum. Hundurinn er besti vinur mannsins og þótt ég sé kannski ekki meiri hundakall en gengur og gerist, þá hef ég í þessum Thailandsferðum stundum náð að tengjast þeim og eignast litla vini. Ég veit ekki hvað það er við þessi litlu dýr, en þau eru málleysingjar eins og ég og mér finnst oft mjög gaman að fylgjast með þeim. Sérstaklega ef þetta eru heimilishundar, en villihundarnir eru varari um sig og eru mjög sniðugir að lifa af. Hundar lifa stutt hérna í Thailandi. Mjög margir verða fyrir bíl og hef ég margoft þurft að keyra fram á hunda sem hafa endað líf sitt fyrir bílnum, bæði á hraðbrautum og inni í borgum. Ég man í einni ferðinni var lítill hundur tekinn inn á heimilið. Hann átti líka að vera leikfélagi krakkana og sjálfur hafði ég gaman af því að fylgjast með honum stækka og þroskast á hverjum degi. En þegar ég vaknaði einn morguninn var hann horfinn. Enginn vissi hvert hann hafði farið, enda var mjög líklegt að hann hafði týnst í skóginum eða orðið fyrir bíl. Ég leitaði hans næstu daga, en fann ekki. Og í hvert sinn sem ég kem í sveitina eru komnir nýjir hundar í stóra húsið. Ég spyr hvað hefði orðið um þá gömlu, en þá fer fólkið að klóra sér í hausnum og man ekki hver örlög þeirra urðu. Nær allir hundar hérna ganga lausir. Þeir sem ekki gera það eru þá sérstakir varðhundar, sterkir og stórir sem geta auðvitað verið stórhættulegir, en svo eru það litlu kjölturakkarnir sem eru líkari hundum á Íslandi, þs eru bundnir við heimilið. Mú Bing var einmitt svona hundur og hann var keyptur til að vera leikfélagi hennar Nong Beng, en það lenti því á fólkinu í stóra húsinu að sjá um hann. Þegar við mættum á svæðið í byrjun október voru því miklar öfgar í hundamálum fjölskyldunnar. Annars vegar voru hinir stóru og stæðilegu Rottwailerhundar Jennifer og Ronaldo og hins vegar var hún litla Mó Bing sem var í pössun. Allir þrír hundarnir áttu að vera innan girðingar. Síðan fóru þau Jennifer og Ronaldo í sérstakann hundaskóla og verða þar fram yfir áramót. Mó Bing var hins vegar áfram á staðnum þótt enginn vissi í raun hvar hún átti að vera. Mó Bing náði þó að bræða hjarta okkar flestra með sínum fíflalátum, fjöri og lífsgleði.
I
Einn daginn kemur skrítið mál upp. Hún Dúdda móðir Beng & Bach fór með litla Mó Bing í hundaklínik til þess að þrífa hann og snyrta. Þetta tók einhvern tíma og um kvöldið er hundurinn sóttur til Loei og farið með hann heim til Wangsapung. Fjölskyldunni bregður í brún, því það kom í ljós að þetta var ekki rétti hundurinn, heldur allt annar hundur. Hann var einhvernveginn stærri og hreinni og hegðaði sér allt öðruvísi. Núna var hringt mikið milli manna og flestir sem höfðu séð hundinn voru sannfærðir um að hér hafi ruglingur átt sér stað. Haft var samband við hundaklinikið og spurt hvernig þetta hefði gerst, en þeir könnuðust ekki við neitt. Það hafði bara verið einn hundur af þessari tegund hjá þeim og þetta væri rétti hundurinn. Þá var talið að þetta fyrirtæki hafi látið þau fá annan hund, því þessi sem kom til baka var bara venjulegur puddelhundur, en Mó Bing var af sérstakri tegund. Sú tegund kostar um 1500 bath, en venjulegur puddelhundur kostar bara 500 bath, þannig að foreldrar krakkana urðu alveg æfir og vildu fá skýringu. Mér var illilega brugðið og spurði hvort eitthvað væri hægt að gera. Nei ekkert hægt að gera, svona er þetta í Thailandi var svarið. En eigum við bara ekki að heimsækja þetta lið sagði ég og varð foxillur. Maður lætur ekki taka barnið sitt svona frá sér. Nei, ekki voru þau með neinar lausnir. En var þetta hundurinn? Nei ekki sagði Nai og hann var allveg hundarð prósent viss. Hann kom síðan um kvöldið og sýndi okkur hundinn en var þá farinn að efast. Hundurinn tók nú að sýna allar sínar listir og var hann meðal annars fljótur að finna leið í gegnum hliðið sem hann einn þekkti og í ljós kom að þetta var rétti hundurinn. Hann havði jú verið tekinn í gegn og skrúbbaður vel. Um kvöldið hafði hann bara farið í fýlu eða þunglyndi og var ekki sjálfum sér líkur. En nú syndi hann sitt rétta andlit. Ekki veit ég hvort þau Dúdda og Nai báðu hundafólkið afsökunar, en það var mikið hlegið að þessari uppákomu eftirá. Hundurinn var jú gjörbreyttur í útliti.
II
Vanalega þegar við fengum okkur göngutúr frá stóra húsinu um sveitina var Mó Bing vanur að elta okkur. Hann hitti vanalega aðra hunda á leiðinni og lét öllum illum látum, en alltaf kom hann aftur til okkar og var auðvitað samferða heim. Þetta voru samt hættulegar ferðir því Bing kunni ekki að vara sig á bílunum, en það var oft erfitt að reka hann í burtu. Síðustu daga hef ég fengið mér göngu í nýja húsið og hefur hundurinn oft hlaupið á eftir mér þessa rúmlega hundrað metra og komið samferða mér heim. Í morgun þuftum við að fara frá tölvubúðinni til Loei til að kanna pappíra vegna einbýlishússins. Þegar við komum aftur í sveitina, átti ég að taka pallbílinn og koma að hitta systurnar í stóra húsinu í sveitinni. Ég mætti á staðinn en ákvað um tíu leitið að fá mér göngutúr niður í gamla húsið og borða þar nestið mitt, sem ég hafði keypt í 7-11 búðinni í bænum. Mó Bing elti mig og inn í húsið, en síðan heyrði hún í vinum sínum, tveim stórum hundum fyrir utan. Hún tók á rás og elti þá en þeir voru að elta einhvern annan óboðinn hund. Ég heyrði flautað og svo skell og síðan heyri ég bíl snögghemla. Ég hljóp út og fjörtíu metra í burtu sé ég ýlfrandi hund. Ég hafði heyrt þetta angistarýlfur áður í bænum þegar ég keyrði upp á hund sem keyrt hafði verið yfir og félagar hans voru að kveðja hann. Þetta var sama gólið. Ég kom nær og sá að hundurinn lá í blóði sínu og hinir hundarnir að stumra yfir honum. Hundurinn sem lá í blóði sínu var Mó Bing. Bíllinn sem hafði keyrt á hundinn stoppaði en ég virti bílstjórann ekki viðlits. Hefði ekki þýtt neitt því ég vissi að þetta var ekki hans sök. Ein nágranakona okkar var vitni að slysinu og hún sá Mó Bing hlaupa þvert fyrir bílinn og bílstjórinn gat í raun lítið gert. Bílinn var ekki á mikilli ferð. Það voru þung spor að ganga þessa hundrað metra með hundinn í fanginu að bænum og tilkynna um dauða hundsins. Fólkið tók þessu öllu með stillingu, enda daglegt brauð hér um slóðir. Þó var strax hringt í Dúddu móður barnana og þau sótt í leikskólann til að kveðja hundinn. Hann var svo jarðaður rétt fyrir klukkan ellefu í morgun á lóðinni sem Nai er að smíða sumarhúsið. Saman grófum við holuna og síðan lagði ég hann í hana og síðan var mokað yfir. Síðan var kveikt á tveim kertum og blóm lagt á leiðið. Ég get ekki varist þeirri hugsun að velta fyrir mér hvers vegna ég var staddur á þessum degi á þessari mínútu í sveitinni. Af hverju var ég að þvælast þetta niðrí hús til að borða súpuna mína. Hvers vegna passaði ég ekki betur upp á dýrið. Í raun var tíkin alltaf í semi-gæslu. Hún hefði í raun átt að vera með ól og vera bundin, en þetta er auðvitað bara vangaveltur. Ég er samt í dag fullur sektarkenndar og finnst ég bera mikla sök. Ég þótti líka orði svo vænt um dýrið og hafði hugsað mér að bjóðast til að sjá um hana meðan ég dveldi hérna. Ég veit að í dag er fullveldisdagurinn 1. desember og litli Tiger er 5. mánaða gamall. Við ætlum að halda upp á daginn í kvöld, en það er þungt i manni og maður hefði frekar viljað sofa út í morgun. Ég veit að flestir hundavinir skilja mig, en aðrir hrista bara hausinn. Fyrri myndin var tekin í gær, þegar við röltum öll saman í húsið, en seinni var tekin á hádegi í dag.
(seinni myndin á að vera af leiði Mó Bings)
0 Comments:
Post a Comment
<< Home