Friday, January 05, 2007

Crazy

Ég fór á æfingu í dag, en í þetta skiptið þurfti ég ekki að lyfta einn. Maður að nafni Ömmi Crazy var að byrja æfinguna eins og ég. Ömmi þessi eða Ögmundur leigubílstjóri var einn sá hrikalegasti hér áður fyrr. Ögmundur sem nú er kominn á sjötugsaldurinn getur lyft yfir 150 kg hvenær sem er, en hann er nú aftur byrjaður að æfa og er margfaldur meistari í bekkpressu. Hann er sennilega eini maðurinn á Íslandi í dag, sem tekur yfir 150 kg, en er samt kominn á sjötugsaldurinn. Ömmi á best í kringum 195 kg og gæti náð sínu gamla formi ef hann heldur áfram að mæta. Við æfðum með sérstaka stöng sem Magnús Ver á að hafa smíðað fyrir Jón Pál á sínum tíma. Um er að ræða venjulega stöng, en gripið á stöngini er þannig að gripið er hálföfugt, sem þýðir að minna álag er á axlir. Við félagarnir pumpuðum 115 kg nokkur reps, en viktirnar á þessari stöng eru mun þyngri en á hefbundinni stöng. Annars finnst mér hinn sanni andi vera að koma í gymmið. Búið er að hengja upp stóru myndina af Jóni Páli fyrir ofan bekkinn og speglar eru komnir í powerherbergið og svo er það Jón Páls stöngin fræga sem ég ætla að lyfta oftar með enda söguleg stöng, eins og Ömmi orðaði það.

Á morgun ætla ég að bregða mér í Hagaskóla til að taka þátt í forvali fyrir keppnina um Meistarann sem Stöð 2 sýnir á næstu mánuðum. Einn vinnufélagi minn náði mjög langt í þessari keppni í fyrra og það er alveg sársaukalaust að vera með. Það sem ég hef ekki mætt á Grandið í tæplega ár, þá langar mig að sjá hvernig mér gengur í dag, en ég hef lítið getað fylgst með dægurmálum, þannig að hætta er á því að ég fari illa út úr þessum spurningaleik. Skiptir varla máli, því ég hef samt alltaf rosalega gaman af svona spurningaleikjum.

Annars er það að frétta að við erum búin að finna draumaíbúðina, en til þess að eignast hana verðum við sennilega að borga of mikla peninga og selja Mýrina sem fyrst. Í tvö fyrri skipti sem ég hef skipt um íbúð, hef ég alltaf selt fyrst og keypt svo og í bæði skiptin þurfti maður að milliflytja, þótt maður fengi m.a fjóra mánuði til að afhenda seinni íbúðina. Því viljum við kaupa fyrst og síðan selja í rólegheitum, en þessir fasteignasalar eru erfiðir og vilja fá mann til að falla í sömu gryfjuna og tvö fyrri skiptin. Ég nenni ekki að standa í því aftur. Maður á ekki að selja ofan af sér og lenda svo á götunni. Það kemur ekki til mála.

Annað kvöld ætla ég að skjóta upp nokkrum flugeldum, fara svo í fjölskylduheimsókn og enda kvöldið á að sjá bestu hljómsveit Íslandsögunnar, unglingahljómsveitina Pops. Ég hef alltaf reynt að sjá þá á hverju ári. Ef ég hef ekki komsit á nýjársdansleikinn á Hótel Sögu, þá hef ég farið á Kringlukránna helgina eftir. Óttar Felix Hauksson er mesti töffari sem ég hef kynnst á lífsleiðinni. Hann er Bítlakynslóðin holdi klædd. Núna hefur Eiríkur Hauksson fyllt skarðið sem Pétur Kristjáns skildi eftir sig og ég efast ekki um að þeir verða frábærir að vanda. Þetta verður CRAZY stemming.

Nú eru enn ein jólin að renna sitt skeið. Fyrir mér eru jólin hátið afslöppunar og fjölskyldunnar. Fólk hittist borðar góðan mat, les góða bók og nýtur þess að hlusta á góða tónlist. Einhverntíman kom það til tals út í Thailandi hvernig það væri að lifa allan veturinn í myrkri og kulda upp á Íslandi. Ég reyndi að skýra það út að hátíð jólanna bætti úr þessu, því þrátt fyrir myrkur og leiðindi, þá gefa jólin manni mikla birtu og gleði. Og tónlistin og vanafestan skipar líka mikinn sess í jólahaldinu. Maður hlustað eiginlega alltaf á aftansöng jóla á aðfangadag og tók þátt í öllum hefbundnum "serimóníum" í kringum jólahaldið, allt laufabrauðsbakstri til aðventuskreitinga. Jólin eru ekki bara þessa þrettán daga. Þau byrja að mínu áliti strax á aðventunni (fyrr hjá sumum) og enda á þrettánda degi jóla. Það er líka orðið ómissanid að hlusta á Helga Skúlason fara með kvæðið Nóttin var svo ágæt ein. Annað dæmi um jólastemmingu í minnni fjölskyldu var eitt tónlistamyndband sem horft var á þúsund sinnum á heimili afa míns og ömmu, en það voru jólatónleikar Pavarottis í Montreal einhvertíman í upphafi níunda áratugarins. Held að karlinn hafi verið á hátindi ferils síns þá og fegurri söng hef ég hvorki heyrt fyrr né síðar. En núna enda jólin hjá mér með tónleikum hjá Pops. Vonandi fæ ég útgönguleyfi hjá frúnni.

2 Comments:

Blogger Fjölnir said...

Heljákvætt pump. Mér líst vel á þetta hjá þér. Hvenær á að bregða sér í bekkpressubol til að kanna sig og læra á bolinn?

11:51 AM  
Blogger Gunz said...

Verð að redda mér bol. Var með lánsbol fyrir Ólafsvíkurmótið, en ég komst auðvitað ekki á það mót því krílið var að koma í heiminn, VErð að "græja" þetta fljótlega. Bætingarnar eru handan við hornið.

7:41 PM  

Post a Comment

<< Home