Thursday, May 24, 2007

Úr einu í annað

Skil ekki hvað er að gerast með mig, því ég hef ekki bloggað um neitt annað en pólitík síðustu vikur. En ég hef hvorki áhuga á pólitík né vit á þeirri tík. Sagði Albert heitinn ekki að hún væri skrítin tík þessi pólitík. Veit bara að það er komin ný ríkisstjórn og ég spáði nokkuð rétt um ráðherravalið. Hjá Samfylkingin var ég með 5 af sex réttum, en hjá Íhaldsflokknum var ég með fjóra af sex. Ekki svo slæmt. Ég er bara óhress með einn ráðherra af tólf og það er ekki svo slæmt. Ég mun sérstaklega fylgjast með honum og senda honum jákvæða strauma.

Annars hefur mikið verið að gerast hjá mér síðustu daga. Það er helst að sólahringurinn er alltof stuttur og því þyrfti maður að skipuleggja tíma sinn betur.

Í gær fékk ég langþráða sendingu þegar bekkpressusloppurinn var sendur heim til mín, en ég hafði beðið rúmlega tvo mánuð eftir að fá hann og misst af tveim Íslandsmótum í millitíðinni. Skipti ekki svo miklu máli, því ég keppti á þeim þrátt fyrir það og var ekki að geta neitt í pressunni, en núna verð ég að sýna bolnum þá virðingu að koma helsterkur á næsta mót og bæta mig. Ég mun vonandi æfa þrisvar sinnum í viku í sumar, en kemst vonandi með fjölskylduna til Spánar í eina viku. Svo mun maður nota hvert tækifæri til að bregða sér í sumarbústað, annaðhvort með vinum eða ættingjum. Sveitin heillar eins og fyrra og fjallgönguskórnir, veiðigræjurnar og golfsettið verður tekið fram eins oft og kostur er.

Svo náði ég þeim langþráða áfanga að útskrifast sem sjúkraliði, en ég kláraði síðast tímann fyrir nokkrum dögum og skilaði lokaverkefninu og tók sjúkrapróf í hjúkrun í síðustu viku. Ekki hafði ég eirð í mér til að lesa mikið, því prófið var á mánudegi eftir kosninga&Eurovisionhelgina. Ég náði þó að klára og verð útskrifaður með pompi og prakt á morgun. Reyndar er hálf skrítið að útskrifast úr fjölbrautaskóla árið 2007, þegar ég útskrifaðist BA úr Háskóla Íslands árið 1999. Það sama átti við um félagsliðanámið, sem ég kláraði í fyrra, en ég stundaði nám í báðum fögum á sama tíma og sé ekki eftir því. En þetta nám sem ég klára núna gefur manni þó meiri möguleika, eins skrítið og það er. Ég ætla þó ekki að láta staðar numið og ætla að velta fyrir mér frekara námi, en ég verð þá að gefa mér meiri tíma í næsta skref, en í sjúkraliðanum var ég oftar en ekki að láta vinnu og áhugamál ganga fyrir náminu. Ég vil líka þakka þeim sem stóðu að félagsliðanáminu fyrir að ég fór í sjúkraliðann, því eftir eina önn í félagsliðanum var ég svo ósáttur að ég byrjaði í sjúkraliðanum næstu önn á eftir. Í kvöld ætla ég svo að bjóða fjölskyldunni í kaffi í kjöfar þessara "merku" tímamóta.

Á morgun ætla ég svo að halda upp á áfangann og fara í betri fötin og setja rauða og hvíta nelliku í brjóstmálið. Svo tímdi ég ekki að kaupa mér sjúkraliðahúfu, þannig að ég mun nota svarta stúdentskollinn, sennilega í fyrsta sinn. Ég minnist þess ekki að hafa sett upp húfuna áður. Ekki einu sinni, þegar ég útskrifaðist sem tæknistúdent árið 1993, þá var Iðnskólinn ekki með neina formlega útskrift fyrir brautskráða nema.

Ég setti inn skoðunarkönnun á Moggablogginu og spurði hvað blogg maður ætti að haldi sig við. Flestir kusa að ég ætti að halda mig við barnasíðuna, sem kennd er við Viktoríu. Númer tvö endaði svarta síðan hjá blogspot.com (gamla síðan) eftir harða samkeppni við Moggabloggið. Ég er alveg sammála um að barnasíðan er eina vitið, en ég mun eflaust halda mig við Moggabloggið og svörtu síðuna á næstu misserum.

Næsta skoðunarkönnun mun fjalla um framtíðina, því hún er ennþá óskrifuð eins og alltaf. Eflaust held ég áfram að vinna á sama stað en núna sem sjúkraliði á mun betri launum. Núna opnast hins vegar margir möguleikar í framhaldinu. Þegar ég hugsa til baka var einn ókunnur maður sem hvatti mig áfram árið 1989, þegar mér datt í hug að skella mér og skoða tölvubraut Iðnskólans. Þá hafði ég fyrir löngu ákveðið að læra ekki meira, en ég hafði tekið örfáa kúrsa í MH og hafði ekki áhuga á að eyða meiri tíma í framhaldið. Maðurinn sem ég talaði við var feitur og pattaralegur ungur maður, sem stjórnaði tölvubraut Iðnskólans. Hann talaði mig inn á að prófa, en næstu þrjú ár voru ein bestu skólaár mín, því ég gat í þrjú ár einbeitt mér að tölvu og tæknibrautinni á fullum námslánum. Þessi maður hét Gunnar Svavarsson og er núna nýorðinn þingmaður og ráðherraefni í framtíðinni. Enn einn tilvonandi þingmaðurinn sem orðið hefur á vegi mínum.

En hvað á ég að spúnkast til að læra? Þetta verður að vera létt og þægilegt nám, þannig að ég geti stundað 120% vinnu með, en samt bætt við mig einni gráðu í viðbót. Skoðunarkönnunin hljómar svona. Hvað á ég að stúdera næst?

A. Framhaldsnám í Geðsjúkraliða, 1. ár

B. Hjúkrunarfræði td í fjarnámi

c. Mastersnám í Sagnfræði

D. Thailensku, arabísku og spænsku

E. Guðfræði

F. Eitthvað nýtt, sb viðskiptanám á Bifröst

G. Ekki neitt, nóg komið. Skóli er fyrir letingja.

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

guðfræði

1:35 AM  
Anonymous Anonymous said...

ÆTLARÐU AÐ VERA Í SKÓLA TIL NÍRÆÐS mASTER?
Ættuð þið Deng ekki frekar að fara að njóta lífsins og stækka við ykkur úr einu herbergi í a.m.k. 2?..nú ferðu á hærri laun og ættir að geta farið að minnka þennan kapitalista í þér...
Eins og ég.. sem hugsa ekkert kapitalist..var að opna nýjan verðbréfareikning í dag í Kaupþingi uppá hálfa milljón eða svo...verð að tryggja elliárin!
-------------------
Kveðja Sir Magister

12:11 PM  

Post a Comment

<< Home