Að vera
Núna er komið að smá barnaheimspeki. Hvað er það að vera? Ég lærði m.a mína heimspeki hjá Þorsteini heitnum Gylfasyni og hafði miklar mætur á þeim manni. Ekki situr svo sem mikið eftir af spekinni sem ég lærði hjá honum, en ég man þó eftir nokkrum gullkornum frá honum. Einnig eftir fyrsta tímanum hjá honum, sem var ein skemmtilegasta kennslustund sem ég hef upplifað. En hvað um það, þá sagði Þorsteinn okkur dæmisöguna um elstu skófluna á Siglufirði. Skóflan var ævaforn og stórmerkileg vegna aldurs hennar, en það var reyndar búið að skipta fimm sinnum um skaft á skóflunni og sjö sinnum um blað. Var þetta þá sama skóflan? Er ég t.d sami maðurinn og fyrir sjö árum síðan? Nei ekki endilega, því líkaminn endurnýjar sig reglulega og hver einasta fruma mín fyrir sjö árum er núna dauð og aðrar komnar í staðin, samkvæmt einhverri lífefnafræði-kenningu. Líffærin eru ný, m.a augun sem hafa endurnýjað sig á sjö árum. En andinn sjálfur? Sálin er hún ekki sú sama? Þú gengur aldrei tvisvar út í sömu ána, sagði sá mikli heimspekingur Herakleitus. Já, hvað er það að vera? Hvað er Íslendingur? Mér var líka hugsað til gamla hússins á Austurstræti 2, sem hét síðast Pravda og svo margir sjá núna eftir. Húsið sem var eitt af elstu húsum landsins var orðið vel yfir tvöhundruð ára, en var nokkuð upprunalegt í húsinu, nema þetta blessaða eldstæði? Var þetta sama húsið og fyrir rúmlega tvöhundruð árum?
Ástæðan fyrir þessum hugrenningum mínum eru frábærir tónleikar sem ég fór á í Laugardalshöll á sunnudagskvöldið. Þar léku tvær fornfrægar sveitir, m.a Uriah Heep og Deep Purple. Ég hlustaði mikið á Uriah Heep sem unglingur, enda hafði ég eignast flestar plötur þeirra og hafði gaman að. En er þetta sama hljómsveitin og ég fílaði hér áður fyrr. Er hljómsveitin ekki bara nafnið. Dæmi um plathljómsveitir eru m.a Bech Boys, Platters osf, þar sem langflestir af upprunalegu meðlimum hljómsveitanna eru hættir. Í sumum tilfellum eru tvær hljómsveitir með sama nafni að túra um heiminn og mig grunar að "hljómsveitin" Bech Boys sé til í tveim eða þrem eintökum, þar sem einn aðalstofnandi sveitarinnar túrar um heiminn með eigin hljómsveit, meðan tvær aðrar hljómsveitir bera Bech Boys nafnið. Sem dæmi, þá byrjaði söngvarinn í Urriah Heep, Bernie Shaw í hljómsveitinn mörgum árum eftir að ég hætti að hlusta á þá. Gítarleikarinn Trevor Bolder er upprunalegur. Bassaleikarinn byrjaði í hljómsveitinni árið 1976, eða löngu áður enn ég byrjaði að hlusta á þá. En trommuleikarinn var lang bestur. Hvenær byrjaði hann eiginlega í hljómsveitinni? Það sama má segja um Deep Purple, því Ian Gillan söngvari, Roger Glover bassaleikari og Ian Paice trommuleikari eru upprunalegir. Aðalgaurinn gítarleikarinn Ritchie Blackmore hætti í sveitinni fyrir þrjátíu árum, en það er eitthvað við söng Ian Gillans, sem gefur hljómsveitinni trúverðugleika. Jú ég var að horfa á hinar raunverulegu hljómsveitir og þetta eru alvöru rokkbönd. Ég er ekki frá því að Urriah Heep hafi slegið í gegn, með frábærri frammistöðu. Deep Purple voru góðir en stóðu Uriah Heep langt að baki í kraftmiklu spili.
Svei mér þá ef ég er ekki kominn með áhuga á að pæla í gömlu rokki og hlusta á þessa gömlu tónlist upp á nýtt. En fyrst þarf maður að verða sér út um alvöru hljómflutningstæki.
Uriah Heep
1. Easy Livin
3. Gypsy
Deep Purple
3. Black Night
0 Comments:
Post a Comment
<< Home