Saturday, September 08, 2007

Hvað á maður að...

Í dag á ég afmæli og er auðvitað frá fornu fari mikið afmælisbarn í mér. En í dag er ekkert stórafmæli og ég er að vinna næturvaktir sitthvorum megin við afmælisdaginn. Og í millitíðinni er ég svo að passa Tigerinn sem hefur nú uppgötvað nýjan hæfileika, nefnilega klifurtækni. Með alveg ótrúlegri lagni nær hann að sveifla sér upp í tölvustólinn og þaðan príla upp á tölvuborðið þar sem hann kemst í það allraheilagasta í íbúðinni. En hvað um það þá reikna ég ekki með að taka á móti gestum í dag, en hins vegar var það fastur liður í denn að brjóta upp afmælisdaginn með því að fara í keilu, billjard eða út að borða. Í mörg ár fór ég í keiluhöllina í Öskjuhlíð, en hin síðari ár hefur maður kannski skellt sér í billjard eða á pizzastað. Ekki merkilegt svo sem, en í dag var ég að velta fyrir mér að skella mér á Ísland-Spán í knattspyrnu. Veit ekki einu sinni hvort ég fái gott sæti á Laugardalsvelli. Ekki heldur hvort ég fari einn á völlinn, en mér fyndist það þó frekar leiðinlegt. Fyrir tveim árum skelltum við okkur meðal annars til Barcelona & Parísar á stórafmæli mínu. Í framtíðinni mun ég vonandi halda við þessum skemmtilega sið að gera mér dagamun og á stórafmælum mun ég fara til útlanda. Eigum við að segja að ég haldi upp á næsta stórafmæli mitt með góðri Ítalíuferð. Árið verður 2015 og nú er um að gera að byrja að undirbúa sig.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home