Thursday, September 14, 2006

Ekkert mál

Ég fór á myndina "Ekkert mál", en hún fjallar um líf Jón Páls Sigmarssonar. Ég valdi að sjálfsögðu afmælisdag minn til að sjá myndina og sé svo sem ekki eftir því. Með mér á myndinni var systursonur minn Benjamín, en hann er fæddur árið 1996 og er það mesta furða hversu vel hann þekkir gulltímabilið hans Jóns Páls, sem dó um þrem árum áður en Benjamín fæddist. En ég hefði samt frekar viljað fara á forsýningu myndirinnar deginum áður, þar sem ég hefði getað fengið miða og þar með hitt marga marga gamla powermenn, yfir léttum veitingum. Mér fannst myndin að mörgu leiti mjög góð, því ég féll gjörsamlega inn í tíðaranda myndarinnar, en myndir lýsir vel þessum árum frá 1984 til síðasta árs Jóns Páls árið 1993. Þetta tímabil er stundum kallað tímabil áttunda áratugarins, þar sem tónlistin og persónur myndarinnar endurspegluðu tíðarandann mjög vel, eins og Þorgrímur Þráinsson og alheimsfegurðardrottningarnar Hófí og Linda voru fegurstar allra kvenna árið 1986-1990. Við Íslendingar áttum sterkustu mennina og fallegustu konurnar og hingað komu Reagan og Gorbatsjov og menn hlustuðu á Duran Duran og Wham. Mér fannst þó myndin vera helst til löng, þar sem líf Jóns í Skotlandi fékk mjög ýtarlega umfjöllun, en hins vegar voru árin hans í Finnlandi ekki gerð nein sérstök skil. T.d átti hann marga góða vini í því landi og bjó þar um þó nokkurn tíma að því er sagt var. Hins vegar fékk annar "Finni" mikið pláss í myndinni, en það var Finnur Karls, sem rak um skeið eina stærstu líkamsræktarstöð landsins í Borgartúni. Komment hans í myndinni um ýmsar nafngreindar persónu orka tvímælis, en fyrir utan hann voru flestir viðmælendur myndarinnar mjög jákvæðir og einna skemmtilegast þótti mér viðtölin við Kazmaier. Á tímabil þótti mér myndin fara of mikið fram og aftur í tíma. Svo hefði alveg verið hægt að hafa fleirri leikin atriði og smella þá ljósum lokkum og gleraugu á Sæma Kálf Sæmundsson, sem er hrikalega massaður, en líktist Jóni Páli lítið í þeim atriðum sem hann lék í. Einnig var gaman að sjá heljarmennið Vilhjálm Bjarnason í hlutverki kraftamannsins á barnum. En kannski eru sveppir eins og ég ekki dómbær á mynd sem fjallar um þann tíma sem um ræðir. Ég þekkti að að sjálfsögðu aðalpersónuna mjög vel í gegnum fjölmiðla því hann var mikið idol hjá mér. Einnig kannaðist ég við aðra hverja persónu í myndinni því öll þessi gullár Jóns Páls voru svo sterk í minningunni, þar til Jón Páll dó, snemma árs 1993. Þá dó einhver hluti innan í mér, eins og svo mörgum öðrum sem dýrkuðu Jón Pál. Ég fékk aldrei sama áhuga á sportinu aftur og horfði mun minna á kraftakeppnir eins og World Strongest næstu ár á eftir. En hvernig er myndin fyrir þá sem standa fyrir utan íþróttina og þeirra sem þekkja ekki þetta tímabil í Íslandsögunni? Á myndin eftir að falla í kramið hjá hinum almenna áhorfanda? Vona að svo sé, því litli frændi minn sem þekkir þetta tímabil bara af afspurn hafði rosalega gaman af þessari heimildarmynd. Honum fannst hún bara svo svakalega sorgleg. Það fannst mér líka og verð að viðurkenna að ég var næstum farinn að gráta í lokinn.
Einkunn: þrjá og hálfa stjörnu af fimm.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home