Wednesday, March 23, 2005

Íslandsmeistari?

Það gleður alltaf mitt litla hjarta að vinna til verðlauna, því eftir því sem árin hafa liðið hefur sigurpeningum fækkað mjög. Til dæmis held ég mikið upp á tvenn verðlaun sem ég fékk fyrir golfyðkun á síðustu öld, en ég sigraði í tveim mótum í Hveragerði með forgjöf, en þeir sem fengu verðlaun án forgjafar voru ekki gjaldgengir í skúnkaflokkinn, þannig að ég átti kappi við 3-5 á mínu reki. Nú í vikunni mættum við á deildinni til að tefla í móti sem Hrókurinn (Hrafn Jökuls og frændur) og Vin í Hverfisgötu héldu þar sem geðdeildirnar áttu kappi, en keppnin fór fram á Kleppspítala. Einn starfsmaður mátti vera í hverju liði og tveir viðskiptavinir. Þar sem ég og Ágúst Örn (starfsmenn) gátum ekki verið í sama liði var hann lánaður sem 1. borðsmaður fyrir deild 13. Fjögur lið mættu til leiks og vorum við efstir eftir hörkubaráttu við deild 15, sem Jónas Spari leiddi með miklum ákafa, en ég samdi um jafntefli við hann í síðustu umferð, þegar ljóst var að við myndum vinna deild 15 á tveim neðri borðunum. Sjálfur fékk ég 2,5 af þrem mögulegum og sveit okkar varð lang efst, en deild 15 varð í öðru sæti. Í þriðja sæti lenti deild 13 og restina rak sameiginlegt lið deild 19 og Vinjar. Okkur var svo ákaft fagnað á deildinni, enda færðum við henni verðlaunagripinn sem skipar nú heiðursess á deildinni og deildarstýran varð yfir sig ánægð. http://www.hrokurinn.is Hins vegar gekk mér ekki eins vel á Íslandsmóti skákfélaga um daginn. Ég tefldi við Óttar Felix Hauksson í TR-C , en fór að reyna að svíða jafna stöðu og þrátt fyrir að hann hefði boðið mér kaffi og jafntefli þá sprengdi ég mig. Ég mætti síðan dýrvitlaus í seinni skákina og náði að leggja ungan stigaháan Bolvíking Guðmund Daðason í Blackmar-Diemer afbrigðinu og Skagaliðið náði að halda sér í deildinni.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home