Sunday, July 30, 2006
Forustumenn Sambands ungra sjálfstæðismanna munu sitja inn á skrifstofu Skattstjórans í vikunni og ætla að koma í veg fyrir aðgengi almennings að skattaskrám. En hafa þeir ekkert betra að gera en þetta. Ég meina er þetta svo mikið hjartans mál að koma í veg fyrir þennan sjálfsögða rétt okkar að hnísast um náungann. Þessi ungmenni eru að sjálfsögðu varðhundar fjármagnseigenda. Ég ætla nú samt að koma við þarna eftir helgi og sjá þessar "merku" aðgerðir. Núna get ég ekki lengur njósnað um ættingja mína, eins og einn frænda minn sem býr í 150 milljón króna húsi, eða um pabba eða bróðir hans, já og bræður mömmu. Kannski ég hnísist aðeins í tölurnar hans Sveins kennara eða Kidda Hercules. Eða hvað með gaurinn sem hefur ekki unnið heiðarlega vinnu í 25 ár, en á samt sumarhús á Spáni, sem hann heimsækir nokkrum sinnum á ári með fullt veskið af seðlum. Hvað borgar hann til samfélagsins? Nei, þessar íhaldstruntur ætla að skemma fyrir mér ánægjuni. Nei, aðgengi almennings að álagningaskrám eru auðvitað hugsaðar til þess að almenningur geti látið yfirvöld vita ef eithvað óvenjulegt er á seiði hjá manninum í næsta húsi. Væri ekki frekar nær fyrir þetta unga fólk að mótmæla slátrun Ísraela á saklausu fólki í skjóli Bush. Eða hörmungarnar á Kárahnjúkum, þar sem sökkva á landinu fyrir erlenda auðhringi eða hafa einhverjar hugsjónir til að berjast fyrir. Þetta er nú meiri hugsjónamennirnir. Best að kíkja niðrí skatt á morgun og gera sér upp erindi, td að klára að borga fasteignagjöldin og reyna svo að rífa af þessu liði skattaskrána.
Thursday, July 27, 2006
Þegar ég hitti KAZ
Ég var svo frægur að tala nokkur orð við Bill Kazmaier og Ode Wilson á sínum tíma, þegar þeir héldu fyrirlestur í gamla World Class húsinu fyrir margt löngu. Kaz er alveg svakaleg týpa og hrikalegasti maður sem ég hafði augum litið. Ég ákvað að spyrja þá um hvernig ég gæti stækkað bysepinn og þeir voru hinir almennilegustu og Kaz gaf mér svo plakat með sjáfum sér. Síðan var ég svo frægur að ná í eiginhandaráritun hjá Kaz og Jón Páli á móti í Reiðhöllinni, en ég hafði mig ekki í að biðja þá um áritunina sjálfur, heldur fékk ég Narfa bróður í verkið. Ég held alltaf mikið upp á þennan páppír. Annars er þetta frábært framtak hjá Hjalta Úrsusi (Legend) að sýna allar gömlu keppnirnar, eins og Sterkasti maður Evrópu 1983, Sterkasti maður heims 1982-4 osf, en þessi mót hafa ekki verið sýnd hérna fyrr en nú. Svo er bara að hlakka til haustsins og sjá myndina um Jón Pál, en vonandi á goðsögnin Hjalti eftir að gera alveg ógleymanlega heimildamynd, en síðustu daga hef ég verið að horfa á flottar heimildamyndir um m.a Tiger Wood, Maradona, Beckham. En vonandi á myndin um Jón Pál eftir að slá þeim öllum við. Hann var mitt goð eins og svo margra annara.
Tuesday, July 25, 2006
Monday, July 24, 2006
Hver vill
Hver vill drepa saklaust líf? Ekki nokkur maður vænti ég, en í stríði virðist hins vegar alltaf hafa gilt önnur lögmál. Tökum dæmi um George Bush hinn "góða", sem er að sjálfsögðu á móti fóstureyðingum. Hann er meira að segja á móti stofnfrumurannsóknum af trúarlegum ástæðum. En þessi "maður" hikar ekki við að samþykkja loftárásir á saklausa borgara í skjóli nætur, þar sem saklaust fólk er drepið, börn, konur og gamalmenni, en Bush sefur samt rólegur um nætur, því hann telur sig vera að framkvæma vilja guðs. Meira að segja Kári Stefánsson benti mönnum á þetta tvíeðli Bush um daginn, þegar rætt var um "afstöðu" Bush um stofnfrumurannsóknir. Stofnfrumrannsóknir gætu hjálpað milljónum manna um allan heim, sem þjást af skelfilegum sjúkdómum, eins og krabbameini, Parkinson, MS osf. Nei mesti fjöldamorðingi heims er á móti fóstureyðingum og stofnfrumurannsóknum, því hann er sannkritstinn "góður" maður, allveg eins og Bush "eldri", hinn fjöldamorðinginn í fjölskyldunni, sem kom hingað um daginn. Bandarískum stjórnvöldum er líka skítsama um stríðsgglæpi Ísraela gegn saklausum borgurum í Líbanon. Ég segi saklausum, því meirihluti þeirra sem Ísraelsmenn hafa slátrað í Líbanon eru saklaus börn, konur, gamalmennni, kristnir, múslimar, Drúsar og örfáir Hizbollamenn. Við Íslendingar höfum kynnst drullueðli Ísraelska stjórnvalda áður, meðal annars í framkomu þeirra við íslenska ríkisborgara, en frægasta dæmið er auðvitað hvernig þeir komu fram við hana Dorit. En það var auðvitað saklaust, vegna þess að hún slapp lifandi úr landi, en núna verður alþjóðasamfélagið að taka á þessum stríðsglæpum, en ekki að fylgja Bandaríkjamönnum. Við Íslendingar getum samt sjálfum okkur kennt að hluta, því það vorum við sem bárum ábyrgð á því að þessi ófreskja (Ísrael) varð til á sínum tíma.
Saturday, July 22, 2006
Ármannsheimilið rifið
Þá er það ljóst að gamla Ármannsheimilið er að hverfa til feðra sinna. Því miður gat ég ekki æft þarna sem skildi, en leit við nokkrum sinnum í vetur til að grípa í lóð. Stundum lenti ég á erfiðum húsverði, sem vildi ekki hleypa mér inn, en oftast fékk ég að grípa í stöng. Undir lokinn var of seint að falst eftir lyklum, en Ármenningar ætla að halda áfram að lyfta í nýrri og betri aðstöðu í Laugardalnum. Vissulega er sjónarsviptir af gamla húsinu. Þarna byrjaði ég að dútla með Sveini Inga, sem kenndi mér undirstöðuatriðin. Seinna tók Ólafur Ólafsson við, en ég var aldrei lengi í sportinu, en náði þó silfri í snörun og bronsi í jafnhöttun og samanlögðu á mínu eina Íslandsmóti í greininni árið 1988. Þegar ég byrjaði var lyftingasalurinn í hinum enda hússins (þurfti að ganga í gegnum fimleikasal), en áður hafði lyftingaaðstaðan verið á öðrum stað í húsinu, í sérstökum skúr, en sá skúr var sennilega ekki viðbyggingin sem ég byrjaði að lyfta í. Síðustu 15. ár hefur lyftingaherbergið verið vinstra megin við aðalinngang (bláa hurðin, sjá mynd). Margir frægir lyftingamenn hófu sinn feril í Ármannsheimilinu. Núna er því miður þessi aðstaða að hvefa fyrir einhverjum blokkaríbúðuðum, en lyftinga (og fimleika)aðstaðan mun færast annað. Þá er það ljóst að allir gömlu staðirnir sem maður æfði á í upphafi heyra nú sögunni til. Ármannsheimilið, Orkulind (síðar kallað Steve-gym), Orkubankinn og Kjörgarður. Ég keyrði fram hjá húsinu í gær og ákvað að smella mynd af þessu húsi, sem gaf manni svo mikið. Far í friði.
Wednesday, July 19, 2006
Myndin í tækinu
Ég rakst á eina góða mynd á bókasafninu fyrir tveim dögum. Myndin heitir Myrkrahöfðinginn eftir hinn magnaða Hrafn Gunnlaugsson. Myndin er byggð á píslasögu Jóns Magnússonar frá 17. öld. Allveg mögnuð svört mynd um þann viðbjóð sem heittrúarstefnan skapaði á Íslandi. Menn (og konur) voru brendir á báli fyrir litlar sem engar sakir því fulltrúar guðs í landinu töldu sig vera að berjast gegn djöflinum, sem þeir töldu sig sjá í hverju horni. Séra Jón var bara venjulegur strákur sem afvegaleiddist í sinni "trú". Einhvernvegin er mér hugsað til morðanna fyrir botni miðjarðarhafs þegar ég sé þessa sögu frá 17. öld. Ennþann dag í dag er verið að slátra saklausu fólki, bara vegna þess að það hentar málstaðnum. Ísraelsvinir spretta nú væntanlega upp og verja blóðbaðið í Líbanon. Eða eins og Strindberg orðaði þetta svo glæsilega í Fröken Júlíu. Englarnir eru fljótir að breytast í djöfla og djöflarnir breytast í engla. Þannig var þetta í Myrkrahöfðingjanum, því eina "góða" manneskjan í sögunni er unga daman sem er brígsluð um galdra.
Tuesday, July 18, 2006
Framsókn
Maður er búinn að vera hálf "þunglyndur" eftir að Guðni Ágústsson ákvað að fara ekki í formanninn heldur að halda sig áfram í varskeifusætinu. Hrikalegt áfall því þótt ég sé ekki Framskóknarmaður, þá er Guðni maður fólksins og ég hefði allveg hugsað mér að kjósa þennan mann, sem er í raun holdgerfingur hinnar gömlu framsóknarmennsku. Furðulegt hjá Halldóri að koma því þannig fyrir að varaformaðurinn taki ekki við af formanninum, heldur var farið í Seðlabankann til að leita að arftakanum. Verð að viðurkenna að þegar ég heyrði fréttina um ráðherravalið um daginn að þá þekkti ég ekki þennan Jón Sigurðsson, heldur hélt ég að "kratinn" Jón Sigurðsson frá norræna bankanum hefði verið hent aftur inn í pólitík, en nú fyrir Bændaflokinn. Sá Jón Sigurðsson kom líka beint úr atvinnulífinu, en bauð af sér mun betri þokka, en þessi skólameistari og besservisser. Það er ekki hægt að fara svona með varaformanninn og hin aðlmenna framsóknarmann að ná í einhvern karl uppí Seðlabanka. Og enginn þorir að setja sig á móti þessari leikfléttu hjá Halldóri Ásgríms. Ég vona að Sif kynbomba skynji sinn vitjunartíma og fari fram gegn flokkseigendaklíkunni.
Friday, July 14, 2006
Wednesday, July 12, 2006
Goð / skúrkur
Tveir menn sem ég þekki og horfa aldrei á knattspyrnu, vildu allt í einu fara að ræða úrslitaleikinn á HM við mig. Hvorugar hafði séð leikinn, en annar þóttist reyndar hafa séð hann, sem var örugglega ekki satt. En ástæðan fyrir áhuga þeirra nú, var uppákoman með Zidane. Um þetta höfðu þeir miklar skoðanir á atvikinu og allt í einu nennti ég ekki mikið að ræða um fótbolta við þessa menn. Kannski var þetta einhver hroki í mér að nenna ekki að ræða um fótbolta við menn sem hafa hvorki áhuga, né hundsvit á tuðrusparki. Hinu er ekki að neita að álit mitt á Zidane stórjókst við árásina. Þezzi Materazzi er hættulegri en "sikopati" með exi, sagði Logi Ólafsson fyrrum landsliðsþjálfari um manninn, en Íslendingar kynntust þessum "manni", þegar hann spilaði á Laugardalsvelli um árið. Kynþáttafordómar eiga ekki að líðast í sportinu og stundum er réttlætanlegt að lumbra á mönnum. En hefði ekki verið betra fyrir Zidane að jafna um hann eftir leikinn, en ekki fyrir framan milljarð áhorfandi sem horfðu á? Þvílík dramatík að spila sinn síðasta leik á ferlinum fyrir framan einn milljarð áhorfanda í sjálfur úrslitaleiknum á HM og missa sig í geðveikina. En ég virðist alltaf vera þannig gerður að ég held mest upp á ólíkindatólin og þá breysku. "Brjálaðir" snillingar eins og Maradona, Tyson, Fischer, Ronney og Zidane eru í miklu uppáhaldi. Reyndar skilur maður vel með tvítugan strák eins og Ronney að missa sig, en Zidane hefði átt að bíða með barsmíðarnar þangað til eftir leikinn.
Sunday, July 09, 2006
Forza Ítalia
Megi betra liðið vinna í dag. Ítalía ætti að hafa það, enda tel ég þá vera með þéttara lið og meira sannfærandi. Frakkarnir gætu þó haldið áfram að gera góða hluti og sjálfstraustið ætti að vera í botni hjá hinum hæga Zidane. Gott að þetta er búið. Flestar stjörnurnar í þessu móti náðu ekki að sýna sitt besta eða hreinlega drulluðu á sig. Sumir sáust lítið eins og Ronaldinho, eða duttu út úr keppni með góðum liðum, eins og stjörnurnar í liðum Argentínu, Spánar, Brasilíu og Englands Sama var sagt um franska liðið eftir riðlakeppnina, því þeir voru alveg skelfilegir. En það ekki alltaf besta og skemmtilegasta liðið sem vinnur, eins og sannaðist fyrir tveim árum þegar Grikkir urðu Evrópumeistarar. Það væri eftir öllu að Frakkar myndu stela þessu, en ég spáði þó vonandi rétt. Áfram Ítalía.
Friday, July 07, 2006
Kominn heim
Þá eru þau loksins komin heim af LSP. Fótbolti dafnar bara vel og þá er málið að gera við bílinn, því nokkkrum tímum áður en hann fæddist bakkaði ég létt á auglýsingaskilti og mölbraut afturrúðuna. Þetta var svona líka þegar ég fæddist, því þá skilst mér að faðir minn hafi vafið sínum bíl í kringum staur. Sem betur fer var bílrúðan tryggð í bak og fyrir hjá Sjóvá.
Tuesday, July 04, 2006
Fóbolti
"Litli Fóbolti" kom of snemma í heiminn, en það var auðvitað ekkert við því að gera. Sama dag var haldið alveg magnað bekkbressumót á Ólafsvík, en nokkrir keppendur voru langt frá sínu besta. En aðrir voru alveg ótrúlegir, eins og Ringo og Hlölli. Hlölli hafði varla æft neitt í nokkrar vikur, en reyndi samt við metið í 100 kg ásamt Ringo og Binnster. Litli fótbolti kemur líka þegar HM í knattspyrnu er við það að ljúka. Einungis fjögur lið eru eftir, en ég er búinn að missa áhugann á þessari keppni. Frakkland, Þýskaland og Portugal eru búinn að grísa sig í gegnum keppnina. Ítalía vinnur þetta, því þeir eiga þetta skilið eftir hremmingar heima fyrir.