Friday, June 30, 2006

Færeyskir dagar

Á færeyskum dögum í Ólafsvík verður haldið heljarinnar veisla, m.a er veglegt bekkpressumót sem haldið verður til minningar um Héðinn Magnússon, en hann fórst langt fyrir aldur fram í sjóslysi. Héðinn var sonur Magnúsar Óskarssonar kraftamanns, sem keppti m.a í lyftingum og vaxtarrækt og í Stuðmannamynd. Miklir kraftamenn eru í þessari ætt, en Héðinsmótið hefur nú verið haldið í nokkur ár með með miklum glæsibrag. Þar ætla(ði) ég að mæta á morgun og taka c.a 200 kg í bekkpressu í fyrsta skipti. Einungis fjölskylduaðstæður hefðu stoppað mig af. En læknarnir vilja endilega setja allt í gang núna um helgina, strax í dag. Mér var því ráðlagt af Sibbu lækni að vera ekki að þvælast út á land á morgun, ef ég ætti ekki að missa af öllum herlegheitunum. Helvítis læknarnir ætla að trufla bætingarnar eða hvað?
http://padregio.blogspot.com/benchpress.gif

Sunday, June 25, 2006

Rusl

Ég var að horfa á þátt um David Beckham þar sem hann lýsti áráttuþráhyggjuhegðan sinni. Man nú reyndar ekki hvað þessi kerling gerði, en snérist það ekki um uppröðun í ísskáp, eða boxernærbuxur? Síðana var ég að lesa grein nýlega um Báru í bleiku, sem aldrei þjáðist af verkkvíða heldur dreif hlutina áfram eins og harðduglegt fólk gerir alla jafna. Það er málið. Ég er með þessa áráttuþráhyggju sem lýsir sér í því að ekki má henda neinu, sem síðan blandast við verkkvíða heimavið. Það hefur orðið til þess að maður hefur safnað í kringum sig rusli og aldrei mátti henda neinu. Núna er tími til að bretta upp ermarnar og byrja að henda rusli. Byrjaði á gamla sjónvarpinu.

Skírn

Ég mætti í skírnarveislu hjá félaga mínum í dag og mætti á hárréttum tíma, eða þannig. Ég mætti kl. 2.30 á mínútunni, en presturinn séra Braga lá svo mikið á að ljúka athöfninni að hann byrjaði um fimm mínútum fyrr. Þessi athöfn var haldin í kapellunni á kvennadeildinni, þannig að þegar maður mætti á svæðið þá var presturinn um það bil að skíra barnið. Ferlega neyðarleg uppákoma, sem skrifast á prestinn, því það voru fleirri gestir sem komu á eftir mér sem misstu líka af athöfninni. Presturinn vildi sennilega ná HM leiknum milli Englands og Equador. Hlýtur eiginlega að vera?
Tefldu á QueenAlice.com

Friday, June 23, 2006

Vikan

Vikan var alveg ótrúlega strembin, enda á fjórum morgunvöktum. Maður var ótrúlega uppgefinn í dag, en ákvað áð taka bekkpressuæfingu. Það ótrúlega gerðist að karlinn ákvað að prófa styrkinn og viti menn þá var 160 kg sett á stöngina. Hefði eflaust getað repsað þá þyngd, en rétt áður var ég svo heppinn að einn gamall kraftlyftingamaður var svo góður að bjóðast til að lána mér slopp Fury númer 50, en hann er nú reyndar fyrir 125 kg mola. Fékk síðan hjálp hjá Binnster eiganda gym 80 og Borgarneströllinu við að komast í bolinn. Lyfturnar voru hálf asnalegar, en ég endaði í 190 kg sem ég tók reyndar tvisvar, en í fyrra skiptið komst ég ekki niður með þyngdina. Tæknilega var hún auðvitað frekar ömurleg, hélt víst of þröngt, fór of hratt niður stoppaði ekki, en á hinn bógin var þetta samt al-time bæting. Æfingabekkur tekur engin alvarlega, en samt gaman að "bæta" sig. Hef kannski lyft meiru á kjötinu einhverntíman, en þetta gefur samt ákveðinn anda. Svo hefur maður aldrei nennt að æfa í júní. Hlýt að taka stefnuna á kjötmótið í haust. Kjötmótið í bekkpressu til minningar um Ólaf Sigurgeirsson. Mótið verður haldið í september og ef fjölskylduaðstæður leyfa mun ég keppa á Héðinsmótinu næstu helgi.

Monday, June 19, 2006

Norðmenn

Ég komst að því í dag að ég er meiri Norðmaður en mig grunaði. Vissi að vísu um að forðfeður mínir væru norskir víkingar og írskir þrælar. Vissi m.a um það að Egill Skallagríms-Kveld-Úlfsson væri forfaðir minn (eins og allra Íslendinga), en móðir Kveldúlfs var samísk (finnsk). En það sem ég vissi ekki var að einn af forfeðrum mínum frá 18 öld var alnorskur, en hann hét Lauritz Hansson Scheving. Og ég sem var sannfærður um að ég væri "alíslenskur", fyrir utan basknesku tenginguna, því ég hef alltaf verið sannfærður um að ég væri kominn af frönskum og basneskum sjómönnum, frá sömu öld, því móðurafi minn og hans fólk var áberandi dökt á hörund, en hins vegar get ég ekki fært haldbær rök fyrir þesari kenningu minni önnur en dulafullur áhugi minn á norður-Spáni. Þessi norski forfaðir minn sem ég uppgötvaði í dag var langalangalangafi langafa míns. Þetta er ekki svo langt aftur, en þessi uppgötvun mun verða til þess að ég mun hér eftir ekki hatast við Norðmenn, eins og ég hef hingað til gert. Hef talið að þeir væru að innlima okkur, fyrst með því að lauma sér inn á okkur og núna eru m.a tveir ráðherrar hálf norskir. Og Geir Hardee hin nýji landsfaðir okkar er einmitt annar af þeim. Já, takið eftir því að sjálfur forsætisráðherra okkar er í raun hálfur Norðmaður. Sif heilbrigðisráðherra og kynbomba er líka hálf norsk og hin "geysivinsæla" Valgerður Sverrisdóttir er gift Norðmanni. Einnig hafa "þeir"reynt að stela af okkur sjálfum Leifi Eiríkssyni og sagt hann vera norskann. Ég held að fólk hafi ekki áttað sig á þessari norsku innrás enda er stutt í innlimun þeirra á okkur, eftir að herinn fer burt. Hlutirnir gætu breyst á einni nóttu eins og gerðist á Balkanskaga, þar sem Norðmenn munu innlima okkur eins og þjófur að nóttu. Við munum ekki einu sinni verða þess vör, en núna er ég ekki svo hræddur lengur, því ég er sjálfur miklu meiri Norðmaður en ég mig grunaði. Heyja NORGE. SKOL

Sunday, June 18, 2006

17. júní

Enginn tími fyrir þjóðhátíð. Var á leiðinni heim eftir morgunvakt til að horfa á handbolta, ákvað að skella mér í bæinn. Ætlaði sko ekki að láta einhvern handbolta skemma fyrir mér þjóðhátíðardaginn. Alveg útí hött að fara að líma þjóðina við kassann á sjálfri þjóðhátíð útaf einhverjum fúlum handbolta. Svo ar fagnað ógurlega í lokinn, eftir að hafa tapað fyrir Svíum. Um kvöldið var keyrður einn hringur, en ákveðið að stíga ekki útúr bílnum þegar maður sá alla þessa unglingadrykkju. Og ekki komst maður á neina kraftakeppni í dag, því miður. Maður nennir varla að hreyfa sig lengur, enda er maður að hlaupa í spik. Enda á maður nóg af Marud-snakki fyrir næsta HM leik. Skjóðuþyndin er núna 110 kg. Metið er innan seilingar. Vantar bara 2,5 kg til að ná persónulegu meti.

Friday, June 16, 2006

Til hamingju Argentína

Ég horfði á hádegisleikinn heima með þeim miklu fótboltaspekingum Magnúsi Colý og Haldóri Faaborgmeistara. Þvílíkur leikur hjá Argentínu og frábært að vinna svona stórt, en það telur ekkert þegar liðið er komið lengra í keppninni. Sagan sýnir að þau lið sem rúlla upp undanriðlunum fá oftar en ekki á baukinn í úrslitunum. Einnig er það staðreynd að suður-ameríkuliðunum hefur ekki gengið vel í Evrópu. Spánverjar og Argentínumenn eru með ein skemmtilegustu liðin í mótinu, en Brassar virðast þreyttir. Spá mín um að Ítalía vinnu stendur enn, því ekki fer maður að draga spánna til baka, en vonandi kemst Argentína sem lengst. Áfram Argentína!

Wednesday, June 14, 2006

Til hamingju Ísland

Ég ætla eins og áður sagði ekki að vera með neinar væntingar um veru Eiðs hjá Barca. Barca er stærsti klúbbur í heimi og hin síðustu ár hefur liðið verið á bullandi uppleið, en það er ekki langt síðan að liðið var í miklum öldudal. Til dæmis eftir að ég heiðraði borgina um nokkra vikna skeið árið 1999 sigldu þeir inn í slæman öldudal, en þeir urðu einmitt meistara það árið. Síðan gekk eiginlega ekkert upp fyrr, en í fyrra þegar þeir urðu meistarar, en árið áður skutust þeir upp í annað sætið. Richard þjálfari hefur verið að vinna frábært starf og hann er ekkert endilega að byggja lið sitt upp á einhverjum stórstjörnum, heldur líka á liðsheild. Það hafði líka mikið að segja að fá Ronaldinho í sínar raðir, en hann er eins og Eiður algerlega laus við stjörnustæla að mínu mati. Það er einmitt þessvegna sem Richard hefur litist vel á Eið, að hann verður örugglega seint til vandræða, þrátt fyrir að vera breyskur maður eins og við hin. Menn eins og Edgar Davis og fleirri egoflipparar eru ekki týpur sem Richard vill í sitt lið. Eiður á þó vonadi eftir að spila einhverja leiki í búningi meistarana, en gefum honum þann tíma sem þarf til að koma sér fyrir í nýju landi og nýrri menningu. Ég er búinn að bíða eftir því mörg ár að sjá Íslending í spænsku deildinni, en þeir bræður Þorður Guðjónsen og Jóhannes léku með Betis og Las Palmas, en því miður lentu þeir fljótlega útí kuldanum hjá sínum liðum.

Tuesday, June 13, 2006

Ég er geðveikur

Mitt í öllu HM fárinu er ég núna andvaka og ætla að pína mig til að klára að horfa á þriðja NBA leikinn sem stendur til c.a þrjú í nótt. Jafnvel þó að ég eigi að mæta á morgunvakt á mest kefjandi deild sem ég hef unnið á. Nýt þess svo hrikalega að horfa á sportið í nýja breiðdjaldstækinu að maður er farinn að horfa á NBA í miðri fótboltaveislu. Þvílíkt rugl. Vona að Miami hafi það, því ég er mikill aðdáandi Miami borgar, sem sem fleirri tala spænsku en ensku. Hver man ekki eftir Miami Vice, sem sýndir voru hérna fyrir fjölmörgum árum. Langflottustu lögguþættir sem ég hef séð. Annars er þetta sumar öðruvísi en önnur, því maður kemst varla úr bænum af skiljanlegum ástæðum. Engar útilegur, ekkert golf, engar fjallgöngur, engar gleðimolaferðir til Spánar eða Thai Engar ferðir í sumarhúsið á Hornströndum eða í Húsafelli. Bara vinna, fótbolti og át meðan maður bíður þess að frúin verði léttari. Svo hefur maður bara æft þokkalega vel síðan maður hætti að "æfa" í næturklúbbnum. Núna er einhver gamall fílingur að taka sig upp, enda ekkert annað að gera. Minnir mig á eina stúlku sem var að segja frá kærasta sínum sem þurfti að gista á Litla Hrauni um hríð. Hann getur ekkert gert annað en að borða og æfa. Mér líður þannig núna "fastur" í Reykjavík, því ég geri ekkert annað í júní, en að horfa tuðruspark og éta, já og stundum að æfa í besta gymminu í dag, Gym 80.

Saturday, June 10, 2006

HM

Nú er HM í knattspyrnu byrjað og maður rauk auðvitað í vekefnið að kaupa nýtt sjónvarp. Keypti þetta risastóra Plasmatæki, sem verslanir hafa nú byrjað að hreinsa út, til að ríma fyrir næstu kynslóð af tækjum. Þetta eru hins vegar ágætis tæki, þótt ekki sé sent út í breiðtjaldsformi hér á landi (sýn extra II gerir það nú reyndar..gott framtak). Horfði þó á fyrsta leikinn í Borgarleikhúsinu, þar sem Gothestofnunin bauð öllum á Þjóðverjaleikinn og allt flæddi í bjór. Ég var því ekki með "fule fem" þegar ég keypti mér sjónvarpið eftir leikinn. Að sjálfsögðu passaði þetta flykki ekki inní innréttinguna og því horfir þetta til vandræða. Verð að taka nokkrar aukavaktir til að bæta upp þetta eyðslubrjálæði. 155 þúsund kostaði tækið, en að sjálfsögðu ekki á borðið. Samt hefur maður verið að horfa á leikina á þessum börum. Hitti til dæmis skólafélaga mína þá Kristján Hlöðverz og Aðalstein Thorarensen yfir leik Argentínu og Fílabeinsstrandarinnar. Við horfðum á leikinn á einhverri biljardstofu á Hverfisgötu. Hef líka kíkt á aðstæður á Hressó og Pravda. Einnig er fínt HM horn á litlu ölstofunni við Kirkjutorg osf. Gaman að kanna þessa fótboltabari, en vil að sjálfsögður forðast helvítis reykinn. Bíð spenntur eftir leik Angóla og Íran. Ajatolarnir gegn mannætunum. Mín spá fyrir keppnina er sú að Ítalía vinni. England verði í öðru og Argentína í þriðja. Vona hins vegar að Argentína hafi það, eins held ég dálítið með Spánverjum og Englendingum. Síðan koma Ítalir. Sagan sínir hins vegar að suður ameríkuliðin hafa aldrei gengið vel í Evrópu (Fyrir utan Brasilíu í Svíðþjóð árið 1970). Það verður spennandi að sjá hvað gerist. Held að Brassarnir og Argentínumenn séu sterkastir á pappírunum, en maður veit aldrei. Það er líka spennadi að fylgjast með því hvort Eiður léttfeiti verði keyptur til Barcelona. Þá eignast þeir örugglega marga nýja aðdáendur á Íslandi. Þá er líka hætta á því að þetta verði einum of tengt Eiði. Ætli hann eigi ekki eftir að gugna á þessu og endi hjá United. Að sjálfsögðu sem varaskeifa líka, en engu að síður tilbreyting fyrir hann.
Spá:
1. Ítalía
2. England
3. Argentína
Spá II:
1. Argentína
2. Brasilía
3. Spánn

Friday, June 09, 2006

Silver 60 ára

Þessi síungi maður er orðinn 60 ára. Hann er ennþá að lyfta á fullu, eins og sjá mátti í Smáralindinni um daginn. Það er er ljóst að enginn maður á Íslandi á eins farsælan og langan feril í lyftingum og Guðmundur Sigurðsson.

Thursday, June 08, 2006

Framsókn að klofna

Helvíti var þetta nú lélegt hjá spunameisturum framsóknar að klúðra svona fyrir Halldóri. Valgerður Sverrisdóttir "uppáhaldið" mitt var líka með vel hugsuð comment, sem gerðu bara illt verra. Guðni Ágústsson er í mínum huga framsóknarmaðurinn holdi klæddur, þs. fulltrúi hins gamla bændaflokks, hins gamla tíma. Hins vegar er einhver "borgarelíta" að reyna að ýta honum út. Það gengi aldrei. Framsókn er í grunninn alltaf gamli góði bændaflokkurinn, sem sækir sitt fylgi í dreifbýlið. Ég sem sagði alltaf að Framsókn væri hluti af þessu 4-5 flokka kerfi sem myndi standa að eilífu. En það verður ekki úr þessu. Af hverju geta þessir bjálfar ekki komið saman sem eitt lið, eins og íhaldið gerir alltaf. Helst hefði ég viljað fá "Denna" aftur, því ég var alltaf mikill aðdáandi Steingríms Hermannssonar eins og öll þjóðin var á sínum tíma (hann er vinsæll og veit af því), en núna gerir hann sig sekann um að hafna sínum eigin bróður. Það þarf bara að horfa á myndina af Lúðvíki Gizurasyni og pabbanum, til að sannfærast um skyldleikann og ef fjölskylda Denna er svona viss um að maðkur sé í mysunni, þá ætti hún að leyfa DNA próf. Þetta er auðvitað sorglegt mál og það er sennilega bara mannlegt að bregðast svona við, þegar miklir peningar eru í húfi. Maður spyr bara eins og Kain forðum: "Á ég að gæta bróður míns?" Eða var það Abel?

Tuesday, June 06, 2006

Kvennadeildin

Furðulegt hvað maður hittir marga á kvennadeildinni. Sumir eru hálf undarlegir og læðast með veggjum. Sumum þorir maður ekki að heilsa, því þeir eru kannski með viðhaldinu. Allavegana eru menn furðu freðnir, en í dag hitti ég einmitt gamlan vinnufélaga og í fyrradag hitti ég síðan enn einn osf. Annars er frú Deng búin að vita hvers kyns barnið er og er að sjálfsögðu búin að kjafta því í allar vinkonurnar.

Sunday, June 04, 2006

Armenar unnu

Sveit Armeniu sigraði glæsilega á ólympíumótinu í skák, sem nú er nýlokið. Glæsilegt hjá þessari sterku sveit. Armenar eru reyndar alveg stórmerkileg þjóð, sem urðu einna fyrstir til að taka upp kristni og eru dreifðir víða um jarðir. Þeir hafa löngum átt óvinveitta nágranna og voru lengi vel innlimaðir í sovéska heimsveldið. (sem vér söknum reyndar mikið) Armenar hafa löngum átt alveg þrususkákmenn, eins og Tigran Petrosjan fyrrum heimsmeistara, en hann ríkti á undan Boris Spassky. Einnig má benda á að Kasparov sjálfur er hálfur Armeni og sagður hálfur gyðingur, en hann breytti sínu gyðinglega föðurnafni sínu úr Weinstein í Kasparov. Kasparov er reyndar kenndur við Baku í Azerbajtjan, en móðir hans var armensk. Ég þekki reyndar einn Armena, sem er mjög stoltur af uppruna sínum. Hann hefur reyndar aldrei komið til Armeniu og heldur ekki forfeður hans í margar kynslóðir, en hann kynnir sig auðvitað alltaf sem Armena, þótt hann hafi búið í Líbanon, Frakklandi, Danmörku og Íslandi. Þetta er minn ágæti vinur Róbó. Hann veit líka hvað Tyrkir gerðu hans þjóð í upphafi tuttugustu aldarinnar. Það var eitt mesta þjóðarmorð sögunar.