Í Baunalandi
Þorláksmessu þurftum við að eyða í Baunalandi. Ekki skemmtilegt og eiginlega ömurlegt. Við misstum af miðdegisvélinni vegna þess að hún var yfirfull og sennilega út af því að það höfðu verið tafir síðustu dagana á undan vegna veðurs. Ég hef eiginlega alltaf haft horn í síðu Dana frá því ég var krakki. Ég var í sigurliði Álftamýraskóla í skólaskák á síðustu öld en í öll þrjú skiptin sem ég keppti voru okkar höfuðandstæðingar Danir. Fyrstu tvö árin unnum við Casten Rasmusen og hans skóla, en síðasta árið unnu Danirnir okkur, enda var Jóhann Hjartarson þá kominn í Menntaskóla og lið okkar hafði veikst. Aldrei voru nein samskipti við þessa fúlu Dani, en hins vegar eignuðumst við oft góða kunningja í norska og finnska liðinu. Þessi gömlu æskuár rifjast oft upp, þegar ég lendi í fúlum Dönum í Copenhagen. Ekki miskilja mig, því þar er margt við danska þjóð sem ég lít upp til. Til dæmis þykir mér okkar gamla höfuðborg oftast vera sjarmerandi og skemmtileg. Þar eru gömul falleg hús, þar sem Íslandssagan er greipt inn í gamla múra. En land og þjóð er ekki það sama. Ég hef talað við fjölda Íslendinga sem hafa búið í Danmörku í nokkur ár og upp í áratug og flest allir hafa sömu sögu að segja. Aldrei eignast þeir Dani að vinum og alltaf er sama yfirborðsmennskan og léttleiki á yfirborðinu, en þegar maður þarf að leita til þeirra vantar í þá alla þjónustulund.
Við lentum nefnilega í því að týna tösku á Kastrupflugvelli. Ég hafði tekið að mér að gæta tasknanna og sérstaklega fylgdist ég með töskunum sem ég hafði geymt myndavél og tölvu, en missti sjónar af "aðaltöskunni", þegar við þurftum að fara í gegnum vopnaleitina hjá Baunum. Við vorum nefnilega með svo mikin farangur að við þurftum að fara út úr flugstöðinni og inn í hana aftur. Þá þurfti maður að afklæða sig og opna allar töskur og setja í gegnum vopnaleit. Það var sennilega þá sem við týndum "aðaltöskunni", þs töskunni með öllum pelunum og þurrmjólkinni. Nú voru góð ráð dýr. Enn voru margir tímar í flug og Tiger færi senn að heimta sinn skammt. Núna tæki við margra tíma grátur og leiðindi. Og eftir smá eftirgrennslan kom í ljós að ekki var hægt að kaupa mjólk fyrir barnið á Kastrupflugvelli. Ég var reyndar sannfærður um að taskan myndi finnast, því ef einhver hefði stolið henni hefði hann farið inn á eitthvað salerni á flugstöðinni og opnað töskuna áttað sig á til mikillar skelfingar að fína taskan innihéldi bara þurrmjólk og pela. En starfólk í information á Kastrupflugvelli er leiðindarlið. Þegar maður þarf að spyrja Dani til vegar eða fá upplýsingar eru þeir hundfúlir og leiðinlegir. Um þetta er m.a Faaborg-meistarinn mér sammála, því ef maður ætlar m.a að taka lestina frá Kastrup niðrá "Hóvedbane", þarf maður m.a að finna út úr þessu sjálfur. Hvergi í heiminum fær maður minni hjálp og lélegri þjónustu. Eftir að hafa þrætt öll WC á flugstöðinni og talað við information og tollverði, þá gaf maður upp alla von. En þá sáum við hitt upplýsingaborðið og það fyrsta sem við rákum augun í var taskan okkar í hillunni bak við afgreiðsluborðið. Töskuna fengum við svo aftur eftir að hafa þrasað við grautfúla danska stúlku, en starfsmaður á fyrra upplýsingaborðinu hafði ekki bent okkur á að tala við hitt upplýsingaborðið. Þar með var málið leyst, en sú fúla vildi ekki segja okkur hvar taskan hefði fundist. Þetta var til þess að ég hafði engan áhuga á að fara niðrá Strik og skoða jólastemminguna í Baunalandi, þótt það kæmi í ljós stuttu síðar að við yrðum að eyða seinni hluta dagsins í flugstöðinni. Svo hætti maður við að versla jólagjafir af Baununum og við fórum bara út í horn og reyndum að leggja okkur. Kannski skýrir það ýmislegt að við höfðum þá þegar ferðast í um tvo sólahringa og þá tekur maður frekar eftir því hversu leiðinlegir Danir geta verið. Eða á ég kannski frekar að segja að Kaupmannahafnabúar séu leiðindafólk eða bara starfsfólk í Kastrupflugstöðinni. Ég hef komið óteljandi skipti til Baunalands og sannfærist alltaf enn frekar um að Danir séu leiðinlegasta fólk í heimi.
Ég sá á danska ríkisjónvarpinu á Breiðbandinu í morgun (ég elska Dani!)að íraskir böðlar tóku Saddam Hússein af lífi í nótt. Ég er auðvitað alfarið á móti dauðarefsingum og leið hálf illa þegar ég sá myndina af Saddam með hettuklædda böðla í kringum sig, en síðan sýndu þeir ekki henginguna sjálfa, en sýnt var þegar þeir settu þykkan kaðalinn um hálsinn á einræðisherranum fyrrverandi. Sennilega er hér komin fréttamynd ársins, sem mun verða langlíf eins og margar "góðar" fréttamyndir. Í næstu klippu sýndu svo Danirnir nokkrar myndir frá Kúrdaþorpi á níunda áratugnum, þar sem Saddam lét drepa Kúrda í hundruðatali, en á myndunum mátti m.a sjá illa leikin lík barna. Ég verð að viðurkenna að á því andartaki sem ég sá þessar myndir (sem ég hafði reyndar séð áður) þá breyttist ég eins og Ragnar Reykás í afstöðu minni til aftökunnar. Saddam er einn mesti illvirki á 20 öldinni og ef einhver á skilið að fá svona aftöku þá er það hann. En það eru samt margir illvirkjar í heiminum sem voru ósnertanlegir og fengu aldrei makleg málagjöld fyrir glæði sína gegn mannkyninu. Ég nefni bara menn eins og Idi Amin (Úganda), Pinochet (Chile), Erik Honecker (Austur-Þýskalandi) osf, en þessir menn voru allir ósnertanlegir síðustu æfiár sín. Ef það er hins vegar eitthvað "réttlæti" í þessum heimi ætti að hengja fleirri fjöldamorðingja. Næsti maður í snöruna á að vera Goggi Bush fyrir glæpi sína gegn mannkyninu. Þessi maður er með fleirri líf á samviskunni er nokkur núlifandi maður á jarðarkringlunni. En ég endurtek enn og aftur að ég er á móti dauðarefsingum, en stendur samt ekki skýrum stöfum í Biblíunni: "Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn."
Eftir mikla yfirlegu og umhugsun ákvað ég að byrja að æfa í Gym80 upp á Viðarhöfða. Ég keyrði fram hjá nýju Bóndastöðinni og sá að ennþá eiga þeir langt í land með að gera allt tilbúið. Ég ætlaði svo sem ekki að sækja neitt í einhver úthverfi eða iðnaðarhverfi, en ætla núna að æfa hjá Binnster þangað til annað verður ákveðið. En flestir gömlu æfingafélagar mínir eru núna hættir að æfa eða hafa gjörsamlega gufað upp. Ég er eiginlega hálf munaðarlaus núna svona æfingalega séð. En þá verð ég bara að finna mér nýja æfingafélaga eða hætta bara í næsta mánuði. Ég hef nefnilega æft ágætlega út í Thailandi, þs guðsgreinina bekkpressu, en hef lítið æft bak og lappir. Ég er því kannski að líkjast einum frægum leigubílstjóra sem æfði bara bekkpressu, en lappirnar urðu að spóaleggjum.
Ég tók þátt í Íslandsmótinu í hraðskák í dag. Stóð mig bara nokkuð vel og var yfirleitt að tefla á borði 4-8 út allt mótið. Tefldi m.a við fjóra stórmeistara. (Stefán Kristjánsson er kominn með þrjá áfanga) Reyndar tefldi ég við fimm því ég náði að leggja Lenku þá íslensk/tékknesku, en hún er stórmeistari kvenna. Svo tefldi við nokkra alþjóðlega meistara og fidemeistara og náði að leggja nokkra þeirra. Ég held að ég hafi aldrei nokkurntíman teflt við svona marga sterka á einu móti, en endaði samt með 8 vinninga af 15 mögulegum. Tapaði m.a tveim síðustu skákunum fyrir stórmeisturum, en annars hefði maður unnið fyrstu verðlaun fyrir þá sem eru 2200 eló stig eða minna. Íslandsmótið í hraðskák, sem í dag var kennt við Friðrik Ólafsson fór fram í aðalútibúi Landsbankans í Austurstræti. Mig langar ekki að hætta alveg að tefla. Er alltaf að gutla eitthvað í bréfskák og svo væri gaman að skella sér á skákmót í Thailandi. Sá að það er flott mót haldið á Puketströndinni í Thailandi um páskana. Kannski maður skelli sér aftur með fjölskylduna til Thailands og tefli á alvöru móti í leiðinni.
Um áramótin ætla ég að borða góðan mat og stíga á stokk og gera áramótaheit. Svo ætti maður að reyna að kíkja í nokkrar heimsóknir, en í miðbæinn fer ég ekki. Til hvers að vera að fara í bæinn á þessum tímamótum, því þetta er alltaf það sama. Útúrdrukkið fólk, erfitt að fá leigubíl fyrir þá sem ekki eru ökufærir. Mikil þregsli á hinum svokölluðu skemmtistöðum og miklar væntingar um kvöldið hjá flestum, sem endar oftast með tómum leiðindum. En það er ekkert að því að kíkja í heimahús til að hitta ættingja, vini og kunningja. Ég vil að lokum óska öllum lesendum mínum Gleðilegs árs og þakka þeim samfylgdina, því kannski skiljast núna leiðir, því eftilvill verður eitt af áramótaheitunum að hætta að blogga.