Saturday, December 30, 2006

Í Baunalandi















Þorláksmessu þurftum við að eyða í Baunalandi. Ekki skemmtilegt og eiginlega ömurlegt. Við misstum af miðdegisvélinni vegna þess að hún var yfirfull og sennilega út af því að það höfðu verið tafir síðustu dagana á undan vegna veðurs. Ég hef eiginlega alltaf haft horn í síðu Dana frá því ég var krakki. Ég var í sigurliði Álftamýraskóla í skólaskák á síðustu öld en í öll þrjú skiptin sem ég keppti voru okkar höfuðandstæðingar Danir. Fyrstu tvö árin unnum við Casten Rasmusen og hans skóla, en síðasta árið unnu Danirnir okkur, enda var Jóhann Hjartarson þá kominn í Menntaskóla og lið okkar hafði veikst. Aldrei voru nein samskipti við þessa fúlu Dani, en hins vegar eignuðumst við oft góða kunningja í norska og finnska liðinu. Þessi gömlu æskuár rifjast oft upp, þegar ég lendi í fúlum Dönum í Copenhagen. Ekki miskilja mig, því þar er margt við danska þjóð sem ég lít upp til. Til dæmis þykir mér okkar gamla höfuðborg oftast vera sjarmerandi og skemmtileg. Þar eru gömul falleg hús, þar sem Íslandssagan er greipt inn í gamla múra. En land og þjóð er ekki það sama. Ég hef talað við fjölda Íslendinga sem hafa búið í Danmörku í nokkur ár og upp í áratug og flest allir hafa sömu sögu að segja. Aldrei eignast þeir Dani að vinum og alltaf er sama yfirborðsmennskan og léttleiki á yfirborðinu, en þegar maður þarf að leita til þeirra vantar í þá alla þjónustulund.

Við lentum nefnilega í því að týna tösku á Kastrupflugvelli. Ég hafði tekið að mér að gæta tasknanna og sérstaklega fylgdist ég með töskunum sem ég hafði geymt myndavél og tölvu, en missti sjónar af "aðaltöskunni", þegar við þurftum að fara í gegnum vopnaleitina hjá Baunum. Við vorum nefnilega með svo mikin farangur að við þurftum að fara út úr flugstöðinni og inn í hana aftur. Þá þurfti maður að afklæða sig og opna allar töskur og setja í gegnum vopnaleit. Það var sennilega þá sem við týndum "aðaltöskunni", þs töskunni með öllum pelunum og þurrmjólkinni. Nú voru góð ráð dýr. Enn voru margir tímar í flug og Tiger færi senn að heimta sinn skammt. Núna tæki við margra tíma grátur og leiðindi. Og eftir smá eftirgrennslan kom í ljós að ekki var hægt að kaupa mjólk fyrir barnið á Kastrupflugvelli. Ég var reyndar sannfærður um að taskan myndi finnast, því ef einhver hefði stolið henni hefði hann farið inn á eitthvað salerni á flugstöðinni og opnað töskuna áttað sig á til mikillar skelfingar að fína taskan innihéldi bara þurrmjólk og pela. En starfólk í information á Kastrupflugvelli er leiðindarlið. Þegar maður þarf að spyrja Dani til vegar eða fá upplýsingar eru þeir hundfúlir og leiðinlegir. Um þetta er m.a Faaborg-meistarinn mér sammála, því ef maður ætlar m.a að taka lestina frá Kastrup niðrá "Hóvedbane", þarf maður m.a að finna út úr þessu sjálfur. Hvergi í heiminum fær maður minni hjálp og lélegri þjónustu. Eftir að hafa þrætt öll WC á flugstöðinni og talað við information og tollverði, þá gaf maður upp alla von. En þá sáum við hitt upplýsingaborðið og það fyrsta sem við rákum augun í var taskan okkar í hillunni bak við afgreiðsluborðið. Töskuna fengum við svo aftur eftir að hafa þrasað við grautfúla danska stúlku, en starfsmaður á fyrra upplýsingaborðinu hafði ekki bent okkur á að tala við hitt upplýsingaborðið. Þar með var málið leyst, en sú fúla vildi ekki segja okkur hvar taskan hefði fundist. Þetta var til þess að ég hafði engan áhuga á að fara niðrá Strik og skoða jólastemminguna í Baunalandi, þótt það kæmi í ljós stuttu síðar að við yrðum að eyða seinni hluta dagsins í flugstöðinni. Svo hætti maður við að versla jólagjafir af Baununum og við fórum bara út í horn og reyndum að leggja okkur. Kannski skýrir það ýmislegt að við höfðum þá þegar ferðast í um tvo sólahringa og þá tekur maður frekar eftir því hversu leiðinlegir Danir geta verið. Eða á ég kannski frekar að segja að Kaupmannahafnabúar séu leiðindafólk eða bara starfsfólk í Kastrupflugstöðinni. Ég hef komið óteljandi skipti til Baunalands og sannfærist alltaf enn frekar um að Danir séu leiðinlegasta fólk í heimi.

Ég sá á danska ríkisjónvarpinu á Breiðbandinu í morgun (ég elska Dani!)að íraskir böðlar tóku Saddam Hússein af lífi í nótt. Ég er auðvitað alfarið á móti dauðarefsingum og leið hálf illa þegar ég sá myndina af Saddam með hettuklædda böðla í kringum sig, en síðan sýndu þeir ekki henginguna sjálfa, en sýnt var þegar þeir settu þykkan kaðalinn um hálsinn á einræðisherranum fyrrverandi. Sennilega er hér komin fréttamynd ársins, sem mun verða langlíf eins og margar "góðar" fréttamyndir. Í næstu klippu sýndu svo Danirnir nokkrar myndir frá Kúrdaþorpi á níunda áratugnum, þar sem Saddam lét drepa Kúrda í hundruðatali, en á myndunum mátti m.a sjá illa leikin lík barna. Ég verð að viðurkenna að á því andartaki sem ég sá þessar myndir (sem ég hafði reyndar séð áður) þá breyttist ég eins og Ragnar Reykás í afstöðu minni til aftökunnar. Saddam er einn mesti illvirki á 20 öldinni og ef einhver á skilið að fá svona aftöku þá er það hann. En það eru samt margir illvirkjar í heiminum sem voru ósnertanlegir og fengu aldrei makleg málagjöld fyrir glæði sína gegn mannkyninu. Ég nefni bara menn eins og Idi Amin (Úganda), Pinochet (Chile), Erik Honecker (Austur-Þýskalandi) osf, en þessir menn voru allir ósnertanlegir síðustu æfiár sín. Ef það er hins vegar eitthvað "réttlæti" í þessum heimi ætti að hengja fleirri fjöldamorðingja. Næsti maður í snöruna á að vera Goggi Bush fyrir glæpi sína gegn mannkyninu. Þessi maður er með fleirri líf á samviskunni er nokkur núlifandi maður á jarðarkringlunni. En ég endurtek enn og aftur að ég er á móti dauðarefsingum, en stendur samt ekki skýrum stöfum í Biblíunni: "Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn."

Eftir mikla yfirlegu og umhugsun ákvað ég að byrja að æfa í Gym80 upp á Viðarhöfða. Ég keyrði fram hjá nýju Bóndastöðinni og sá að ennþá eiga þeir langt í land með að gera allt tilbúið. Ég ætlaði svo sem ekki að sækja neitt í einhver úthverfi eða iðnaðarhverfi, en ætla núna að æfa hjá Binnster þangað til annað verður ákveðið. En flestir gömlu æfingafélagar mínir eru núna hættir að æfa eða hafa gjörsamlega gufað upp. Ég er eiginlega hálf munaðarlaus núna svona æfingalega séð. En þá verð ég bara að finna mér nýja æfingafélaga eða hætta bara í næsta mánuði. Ég hef nefnilega æft ágætlega út í Thailandi, þs guðsgreinina bekkpressu, en hef lítið æft bak og lappir. Ég er því kannski að líkjast einum frægum leigubílstjóra sem æfði bara bekkpressu, en lappirnar urðu að spóaleggjum.

Ég tók þátt í Íslandsmótinu í hraðskák í dag. Stóð mig bara nokkuð vel og var yfirleitt að tefla á borði 4-8 út allt mótið. Tefldi m.a við fjóra stórmeistara. (Stefán Kristjánsson er kominn með þrjá áfanga) Reyndar tefldi ég við fimm því ég náði að leggja Lenku þá íslensk/tékknesku, en hún er stórmeistari kvenna. Svo tefldi við nokkra alþjóðlega meistara og fidemeistara og náði að leggja nokkra þeirra. Ég held að ég hafi aldrei nokkurntíman teflt við svona marga sterka á einu móti, en endaði samt með 8 vinninga af 15 mögulegum. Tapaði m.a tveim síðustu skákunum fyrir stórmeisturum, en annars hefði maður unnið fyrstu verðlaun fyrir þá sem eru 2200 eló stig eða minna. Íslandsmótið í hraðskák, sem í dag var kennt við Friðrik Ólafsson fór fram í aðalútibúi Landsbankans í Austurstræti. Mig langar ekki að hætta alveg að tefla. Er alltaf að gutla eitthvað í bréfskák og svo væri gaman að skella sér á skákmót í Thailandi. Sá að það er flott mót haldið á Puketströndinni í Thailandi um páskana. Kannski maður skelli sér aftur með fjölskylduna til Thailands og tefli á alvöru móti í leiðinni.

Um áramótin ætla ég að borða góðan mat og stíga á stokk og gera áramótaheit. Svo ætti maður að reyna að kíkja í nokkrar heimsóknir, en í miðbæinn fer ég ekki. Til hvers að vera að fara í bæinn á þessum tímamótum, því þetta er alltaf það sama. Útúrdrukkið fólk, erfitt að fá leigubíl fyrir þá sem ekki eru ökufærir. Mikil þregsli á hinum svokölluðu skemmtistöðum og miklar væntingar um kvöldið hjá flestum, sem endar oftast með tómum leiðindum. En það er ekkert að því að kíkja í heimahús til að hitta ættingja, vini og kunningja. Ég vil að lokum óska öllum lesendum mínum Gleðilegs árs og þakka þeim samfylgdina, því kannski skiljast núna leiðir, því eftilvill verður eitt af áramótaheitunum að hætta að blogga.

Wednesday, December 27, 2006

Gleðilega hátíð















Sælar elskurnar mínar! Við erum komin heim. Við viljum hugga aðdáendur okkar með því að við náðum að komast heim á sjálfan aðfangadag jóla, en við tókum kvöldvélina frá Copenhagen á Þorláksmessu, en því miður var fyrri vélin sem fór um miðjan dagin troðfull, en einungis eitt sæti var laus í henni. Ekki vildum við skipta liði frekar en fleirri fjölskyldur sem voru að ferðast á þessum standby-miðum. Sigurður Rúnar náði því sínum fyrstu jólum á Íslandi eins og ég hafði lagt áheyrslu á, en því miður mistum við af Þorláksmessunni og góðri kæstri skötu. Ástæðan fyrir því að við vorum ekki búin að tilkynna okkar komu var sú að Ogvodafone var ekki að flýta sér að opna netið hjá mér. Annars voru jólin mjög góð, þrátt fyrir að við hefðum ferðast í rúmlega tvo sólahringa til að komast heim. Við lögðum á stað 22 desember kl 14.00 á tælenskum tíma, en þá var klukkan átta um morguninn á íslenskum tíma. Síðan var flogið í um klukkutíma frá Loei til Bangkok, þar sem við biðum í rúmlega 11. tíma á glæsilegum nýjum millilandaflugvelli. Síðan tók við um ellefu tíma flug til Baunalands, þar sem við lentum í kóngsins köbenhavn. Þar þuftum við að bíða frá klukkan sjö um morgunin til tíu um kvöldið hjá fúlum Baunum á Kastrupflugvelli. Mistum því miður af miðdegisvélinni eins og áður sagði og tókum því kvöldvélina rúmlega tíu og vorum lent í Keflavík rúmlega tvö um nóttina, aðfaranótt aðfangadags. Vorum svo komin heim í Mýrina kl um að ganga fjögur um nóttina. Því var maður hálfsofandi í jólaboði fjölskyldunnar, en maturinn var frábær og ég fékk m.a góða gjöf eða myndina um Jón Pál sem gladdi mig mikið. Sigurður Rúnar byrjaði sín fyrstu jól með því að rífa upp nokkra pakka með miklum látum og gleði.

สุขสันต์วันคริสมาส
Hyvää joulua!
Merry Christmas!
God Jul!
Froehliche Weihnachten!
Feliz Navidad!
Glædelig Jul!
Prejeme Vam Vesele Vanoce a stastny Novy Rok!
Ruumsaid juulupõhi!
No eliniz Ve Yeni Yiliniz Kutlu Olsun!
Pozdrevlyayu s prazdnikom Rozhdestva is Novim Godom!
Buone Feste Natalizie!
Gledileg Jol!
Gajan Kristnaskon!
Kerstfeest en een Gelukkig Nieuwjaar!
Boas Festas e Feliz Ano Novo!
Felices Pasquas Y Felices ano Nuevo!

Annars eru jólin (Yule) heiðin hátíð, þs orðið jól er dregið úr hátíð sem var til löngu fyrir daga arabíska trésmiðsins sem kenndi okkur að elska og virða náungann. Hins vegar er Kristmessa (Christmas), eins og orðið er notað í flestum öðrum tungumálum en norrænum hátíð Esúa Jósefssonar frá Nazareth. Annars ætla ég ekki að hætta mér út í þessi jólafræði, en ég er alltaf ánægður þegar fólk af öðrum trúarbrögðum virða jólin, eins og til dæmis múslimar og Bahaiar, en Jesú er einn af spámönnunum guðs og í góðu lagi að halda upp á fæðingu hans. Svo eru jólin líka hluti af okkar ævafornu vestrænu menningu og þar eru einungis fýlupúkar sem taka ekki þátt í þessari miklu gleði.

Wednesday, December 20, 2006

Laos

Einbýlishúsið IV

Þá er það ljóst að baráttan um einbýlishúsið er lokið. Síðustu hindrununum var rutt úr vegi í dag og öll pappírsvinna er lokið. Þegar hefur verið skipt um nafn, en þetta tók sinn tíma. á tímabili ætluðum við að hætta við því "íbúðarlánasjóður" í Udoon Tani hafði skyndilega ákveðið að hækka verðið á húsinu. Þessi banki var með lögguna í kverkataki, en einugis þurfti að borga áhvílandi lán til að losna við að lenda í fjárnámi eða á svörtum lista. Ekki skilur maður kerfið hérna, því það er jafn vitlaust og á Íslandi. Það átti fyrst að hækka húsið úr 300.000 í rúmlega 400.000, en þegar við ætluðum að hætta við var ákveðið að setja húsið á uppboð. Síðar dró svo bankinn í land og bauð húsið á 266.000, en síðan þurfti að borga kostnað við að draga kröfuna til baka, svo að lokum var verðið það sama og rætt var um í upphafi. Kostnaður minn var því rúmlega þrjúhundruð þúsund krónur íslenskar, en Bathið (gjaldmiðillinn) hér, er helmingi hærra en íslenska krónan. Núna er forláta útiskákborðið mitt orðið matarborð fjölskyldunar og vonandi sýnir fólkið hér þessu borði virðingu þegar ég verð farinn heim. Við eigum auðvitað báðar hæðirnar, en foreldrarnir fá að vera á neðri hæðinni, þangað til annað kemur í ljós. Að sjálfsögðu á eftir að taka til hendinni og byrjað var að taka þakið í gegn fyrir mjög lítinn pening. Það var sjálfur fyrrum munkurinn Seth, sem rúllaði því upp á einni dagsstund, en frekari framkvæmdir bíða þangað til maður kemur næst í sumarhúsið. Þá er maður víst orðinn íbúðargreifi, en reyndar er húsið ekki á mínu nafni, því hér er verið að meina farang (falang) að eiga eignir. Reyndar eiga þeir eignir út um allt og ég hef þegar byrjaður að kynnast nágrönnum mínum sem búa á móti okkur. Ég er reyndar ekki eins stórtækur og einn vinnufélagi minn, sjúkraliði, en hún var síðast þegar ég vissai að byggja 16 milljón króna villu niðrá Pattaya og í samanburði við hana er ég bara kotbýlingur.

Tuesday, December 19, 2006

Kom vel á nískan

Þegar maður átti svo að fara að endurnýja dvalarleyfið kom í ljós að við öll höfðum farið "aðeins" fram yfir vísatímabilið. Ég hafði keypt túrsita vísa fyrir okkur öll, en það gildir bara í tvo mánuði og borgaði ég fyrir það um sex þúsund krónur. Okkur stóð til boða svokallað non-immigrant vísa, sem er þriggja mánaða vísa, en það hefði kostað mig um sex þúsund krónum meira. Ég sá enga ástæðu til að henda þeim peningum út um gluggan, því við ætluðum hvort eð var að kíkja á Laos, en þegar maður fer út úr landinu og inn í það aftur endurnýjast dvalarleyfið sjálfkrafa um einn mánuð í okkar tilfelli. Reyndar hélt ég að þegar áritunin sjálf sem ég fékk frá Thai-konsúlnum á Íslandi, sem sýndi að áritunin myndi renna út 20 desember væri málið, en fattaði ekki að vísatímbilið kemur skýrt fram í stimplinum sem við fengum frá Immigration á Bangkok flugvelli. Hún rann út í byrjun desember. Þessi stimpill frá herra ræðismanni ruglaði mig í ríminu (það þarf nú reyndar ekki mikið til), en í honum var bara verið að vísa í að landvistaleyfið myndi renna út 20. desember, en ekki dvalarleyfið. Eða var þetta kannski öfugt. Þessi sami ræðismaður fræddi mig líka á því að ég gæti framlengt túristavísað á lögreglustöðvum víðsvegar um landið, en hérna kannast enginn við svoleiðis vitleysu og það er greinilegt að maðurinn hefur aldrei til Thailand komið. Loksins kom svo að því að við skeltum okkur öll til Laosar, en þá fékk maður að borga sektina. Maður vissi alveg um sektina, því maður hafði margoft lesið um hana í túristabæklingum. Þú ert sektaður um 500-1000 bath á dag fyrir hvern umfram dag sem þú ert ólöglegur í landinu. Ég ætla ekki að segja ykkur upphæðina sem ég tapaði, en hún er svipuð og ein góð aukavakt hjá hjúkrunarfræðingi á Íslandi, eða heil árslaun hjá mörgum fátæklingum hér. En það er alltaf "gaman" að koma til Laosar. Siggi er nú ættaður þaðan. En samt var ákveðið að taka Sigga ekki með til Laosar, því það er ekki skylda fyrir hann að fara yfir. Amma hans passaði hann meðan við fórum yfir landamærin að versla merka hluti frá þessu stórmerkilega kommúnistaríki. Þetta var líka skítugur landamærabær og það var ekki ráðlagt að taka lítið kríli með sér þangað. Samt skrítið að koma yfir landamærin því þar var ekkert nema einhverjir trékofar og fátæklingar, en heima í Thailandi er ríkidæmið! Eða þannig. Annars var þetta í annað sinn sem ég kom til Laosar, en í fyrra skiptið kom ég til höfuðborgarinnar Vientiene. Þangað var reyndar gaman að koma og upplifa aðra menningu, en samt er svo skritið að beggja vegna landamærana býr sama fólkið, talar sama tungumál, þs hið hljómfagra tungumál Lao.

Friday, December 15, 2006

Heilsuleikur

Það er auðvitað þreytandi að hanga svona lengi í sveitinni. Því miður eru aðstæðu ekki alltaf eins og maður óskar sér, en þá hefur maður auðvitað þetta val að fara á hótel. Svo hefði maður auðvitað aldrei farið að vera í svona langan tíma nema útaf af herra Tiger. Annars væri ég að að útskifast núna sem Læknaliði (eða hvað heitir þetta bévítans nám annars, aðstoðarhjúkka). Svo er ég núna þeirra gæfu aðnjótandi að ég er hættur að drekka áfengi. Það væri auðvitað gott að geta sturtað í sig Viskey og farið svo að spjalla við fólkið hérna, en ég hef svona frekar reynt að halda mig til hlés. Semsagt fyrir löngu búinn að skrúfa tappann á flöskuna og því hef ég ekki farið í eitthvað rugl í tilbreytingarleysinu hér. Svo hefur maður reynt að halda rútínu og skroppið í "æfingar" þrisvar í viku, en hina dagana hef ég tekið létta spretti. Ég er nefnilega í heilsuleik í vinnunni. Verð að standa mig vel með mínu liði, þótt ég sé í milljón kílómetra í burtu.

Monday, December 11, 2006

Gamla tréð

Þetta gamla tré hafði vakið athygli mína síðustu daga. Yfirleitt keyri ég heim í sveitina eftir að hafa verið að þvælast í bænum um daginn. Eins og gamall þráhyggjusjúklingur vel ég alltaf sömu leiðina og er því farinn að taka betur eftir umhverfinu. Hérna í Siam er auðvitað gífulegur gróður. Svo mikill að ég hef haft á orði að maður sé staddur í frumskógi. Ekki er ég nú mikill sérfræðingur um trjárækt, en síðustu daga hefur maður verið að velta fyrir sér tegundaheitum. Verst að Halldór Faaborg sé ekki hérna með okkur. Hann tók mann yfirleitt í góða kennslustund í garðyrkjufræðum á Íslandi. Já þetta þetta er Stafafura. Þetta þarna er Lerki osf. En hér get ég ekki fengið neina tilsögn í náttúrufræðum. Hef ekki hugmynd um muninn á tegundum hér. Veit td ekki hvort Pálmatré vaxa hér vilt, en það hlýtur eiginlega að vera. Ég ætla að taka eitthvað af myndum af gróðrinum hérna og sýna hinum fræga Faaborg meistara og öllum þeim sem hafa áhuga á trjárækt, þegar ég kem heim. Hér er eins og áður sagði gífurlega gaman að skoða náttúruna þótt maður sé ekki í einhverjum sérhönnuðum þjóðgörðum. Höfum tekið upp á því síðustu daga að keyra sveitavegi og villast smá. Alltaf er maður þó umvafinn gróðri á alla kanta. Líka í "nýja húsinu", þar sem maður fékk í arf forláta ávaxtatré. Eitt gott tré veitir fólki hér oft gott skjól fyrir sólinni. Það er sko ekki verra í steikjandi hitanum. Oft sér maður glæsileg risavaxinn tré, en Þetta tré stendur hins vegar gamalt þreytt og einmanna. Það vakti samt athygli mína, því þetta er sennilega elsta tréið í Loei.

Friday, December 08, 2006

Trúboði

Og þá hefst trúboðið! Ég fékk gefins eitt af þessum útiskákborðum þegar ég fékk borðið hjá mági mínum Nai, sem fékk þetta í kaupbæti með jörð sem hann var að kaupa. Ég hafði líka fengið bjálkatréborð með gamla húsinu, sem var frekar ógeðlsegt, en hann vildi eignast, þannig að við skiptum á sléttu. Núna hef ég eignast mitt annað húsgagn hér því áður hafði ég "fjárfest" í plaststól. Kom því svo fyrir fyrir framan innganginn að "nýja" húsinu. Þá er bara að skipuleggja hérna skáktrúboð og hefjast handa. Það eru nefnilega þannig að mannkynið skiptist í tvo hópa. Í öðrum hópnum eru þeir sem kunna að tefla skák og í hinum eru þeir sem kunna það ekki. Hér í sveitinni er ég sennilega bara einn í öðrum hópnum og allir aðrir í hinum! Þessu ætla ég að breyta. Það er eins og ég hafi fengið vitrun, því hér ætla ég að verða virtur skákkennari. Hér á ég eftir að finna unglingaheimsmeistara eða A-heimsmeistara. Annað hvort verður þeir félagar Hrafn Gunnlaugur og Róbert Lagermaður með mér í þessu eða ekki. Best væri auðvitað að standa ekki í þessu einn. Hrafn þekki ég eiginlega ekkert og Róbert þekki ég bara af vondu einu, en samt er Róbert einn af mínum æsku skákfélögum og ég ber mikla virðingu fyrir honum sem skákséní, þrátt fyrir strangt lífshlaup. Hann er samt mjög góður drengur og vingjarnlegur náungi. Þeir félagar hljóta að sjá að Namibía og Grænland eru bara byrjunin. Hér finnum við hins vegar nýjan Anand. Ég er alveg sannfærður um það. Við sjáum bara hvað er að gerast í skáklífi Kínverja og Indverja. Ég ætla m.a að bjóða þessum mönnum hingað norður, þegar og ef ég fæ nýja húsið. Það er nú nefnilega það! Við kaupum ekki húsið nema allt sé öruggt. Annars er nóg af húsum hérna ef við hættum við að kaupa það gamla.

Annars var ég að stelast í bækurnar hans Óla Thai í leiðindunum hérna. Las m.a Eyðimerkurblómið eftir þá sómölsku, Vetrarborgin eftir Arnald Indriðason og Valkirjur eftir Þráinn Bertelsson. Bók Þráins er alveg meinfyndin og það var þar sem ég stal þessum aulahúmor: Veröldin skiptist í tvo hópa. Í öðrum hópnum eru þeir sem hlusta í Bítlana og hinum eru þeir sem hlusta á Rolling Stones. (Ég geri reyndar hvorugt). Þessi brandari var reyndar sagður í nokkrum útgáfum í bókinni, en hægt er auðvitað að bæta við óteljandi möguleikum. Veröldin skiptist að mínum mati í aðra tvo hópa. Þeir sem lyfta lóðum og þeir sem gera það ekki. Hérna í sveitinni er í líka bara einn í fyrri hópnum. Því ætla ég líka að breyta!

Tuesday, December 05, 2006

Kóngurinn á afmæli

Kóngurinn á afmæli í dag 5. desember og þá fer þjóðfélagið hérna vanalega á annan endan. Flestar alvöru stofnanir eru lokaðar m.a bankar og í kvöld verður mikið um dýrðir í öllum borgum og bæjum landsins. Kóngurinn er dýrlingur og við eigum að tala um hann af virðingu. Það gera allir og ekki má kvika frá því. Annars er kominn tími til að segja frá ævintýrum þar síðustu helgar, en þá fórum við í sumarhús sem er staðsett í risastórum þjóðgarði, sem heitir Tunga-man, sem er í um 150 km fjarlægð frá Wangsapung. Svo þegar maður kom inn í þjóðgarðinn sjálfan, þá þurfti maður að keyra heila 30 km til að komast á áfangastað. Þar er eitt af sumarhúsum konungsfjölskyldunnar og þar er mikið ævintýraland, m.a ganga þar fílar og úlfar lausir innan þjóðgarðs. Annars var ég frekar tortryggin áður en við fórum, því ég vildi ekki fara á eitthvað fjallahótel, því ég hafði haft slæma reynslu af því, en þá var mér sagt að konungurinn sjálfur átti sumarhús við hliðina á okkar gististað, þannig að ég taldi það vera nægan gæðastympil. Annars hafði ég ekki hugmynd um að þarna væru lausir fílar og úlfar þegar ég fékk mér klukkutíma hlaupa og göngutúr um svæðið, en að sögn stafar af þeim lítil hætta, en við heyrðum í báðum þessum skeppnum og sáum nokkur minni dýr. Við hættum við að sofa í sumarhúsinu/hótelinu þegar við sáum hvað þetta var hrátt, meira að segja á tælenskan mælikvarða. Við höfum aldrei séð eins mikið af maurum, en öll "rúmin" vorum morandi í maurum. Því urðum við að sofa í tjaldi á pallinum, sem var alls ekki svo slæmt miðað við aðstæður. Annars var þetta skrítið að vera aðeins 100 metra frá einu af sumarhúsi kóngsins, en fá samt svona hrátt húsnæði, sem ekki var einu sinni boðlegt innfæddum. Ég hélt reyndar að ég hefði séð allt hérna í sveitinni, en þarna var mér í fyrsta skipti verulega brugðið og vildi snúa heim strax um kvöldið. Mér var hins vegar bennt á að það væri ekki sniðugt að keyra í myrkrinu, því það væri hætta á að risa fíll, nautgripur eða elgur myndi hlaupa í veg fyrir bílinn í myrkrinu. Það væri varla þægilegur árekstur. En umhverfið þarna var ægifagurt og um kvöldið fóru allir stóru strákarnir með lukt og Rambóhníf að skoða dýralífið í myrkrinu. Strákarnir stukku svo með hnífinn útí í vatnið og veiddu heila þrjá fiska, en skáru svo af sér blóðugurnar í leiðinni. Þarna er frekar kalt á nóttinni og gott fjallaloft. Maður verður samt að fara varðlega þarna, út af þessum skeppnum og svo leynist ýmislegt í skóginum, eins og td slöngur og blóðsugur eins og áður sagði. Maður þurfti að skoða sig mjög vel eftir að hafa gengið í blautu grasinu og ég fékk meira að segja eina blóðsugu á kálfann, en sem betur fer sá systir Deng hana og var hún skorinn af með stórum Rambohníf, alveg eins og í Rambo III.
Á næstneðstu myndinni má sjá sumarhús konungsins, en á neðstu er gistiskýlið sem er í rúmlega hundrað metra fjarlægð frá "konungshöllinni", en er ekki íbúðarhæft.
"SVEITASÆLA"










































Friday, December 01, 2006

Hvar á...

Ég er get ekki sofnað í kvöld og er andvaka. Það er auðvitað út af þessu með hundinn. Það er ekki bara það að hann hafi hlaupið fyrir bíl, því svoleiðis lagað er daglegt brauð hérna, heldur finnst mér að ég beri töluverða ábyrgð. Þetta var reyndar ekki í fyrsta skipti eða annað skiptið sem hann elti okkur niðrá veg um 100 metra spotta. En samt átti maður að sjá að hundurinn höndlaði ekki að vera þar sem umferð var. Ef hann sá annan hund tók hann á spanið. Þetta var í raun bara rússnesk rúlleta, en þar sem þetta er ekki hraðbraut heldur sveitavegur, þá vorum við kærulausari. Annars fer maður vanalega að sofa snemma hérna og vakna snemma. Hér er fólk nefnilega komið á fætur fyrir allan aldur og þeir sem eru ekki í fastri vinnu kíkja þá bara í heimsókn. Já, heimsókn kl 7-8 á morgnana er mjög algengt hérna. Ég sæi það gerast Íslandi. Þetta fór dálítið í taugarnar á mér, sérstaklega þar sem maður var ekki í prívathúsnæði og þurfti alltaf að vakna við heimsóknir eldsnemma alla daga. En skiljanlega er þetta besti tíminn, því þá er loftið svo gott og rosalega þægilegt hitastig. Þetta hefur orðið til þess að undantekningalaust er maður sofnaður "snemma", Þs ekki seinna en klukkan tvö að nóttu. Það hefur m.a orðið t.d þess að ég hef misst að öllum fótboltaleikjum sem hafa verið sýndir í sjónvarpinu mínu. Á þessum kapalstöpvum hef ég náð enska og spænska boltanum, en vegna tímamismunar hefur hann verið frá miðnætti og alveg til fjögur á nóttinni. Hef td ekki náð að horfa á heilan leik með Eiði Smára, en sé svo daginn eftir að hann hafi skorað eitt til tvö mörk. En hvernig hefur hann annars staðið sig? Annars er núna komin tími á skoðunarkönnun. Ég held að það sé ekki hægt að setja inn svona könnun í blogspot, því ég hef ekki séð það. En ef svo væri myndi ég byrja á þessari.

Hvar á ég að æfa (líkamsrækt, lyftingar) eftir að ég kem heim?

A. Í gym80. (Þar eru félagarnir m.a Sverrir og co. Þangað ætlaði ég)
B. Hjá Bóndanum. (Bóndinn opnar í Hátúni, besta staðsetningin)
C. Hjá fötluðum. (Loggurinn er fínn og ég á vel heima þarna)
D. Orkuverið (þar er mesti andinn. Gaman að æfa með Spjóta og co)
E. Í Laugardal (Einhverstaðar eru ólympískar lyftingar, best að loka hringnum)
F. Í World Class (Það eru alveg hægt að æfa í Laugum og hætta þessum fordómum)
G Karatefélagi Reykjavíkur (maður er orðinn gamall, gott að breyta til)
H. HÆTTA ALVEG. (Þetta er orðið gott, nú á maður að snúa sér að golfi)
E. Einhver annar staður.

Mó Bing















Ég veit ekki hvað það er en ég hef oft laðast að hundum. Hundurinn er besti vinur mannsins og þótt ég sé kannski ekki meiri hundakall en gengur og gerist, þá hef ég í þessum Thailandsferðum stundum náð að tengjast þeim og eignast litla vini. Ég veit ekki hvað það er við þessi litlu dýr, en þau eru málleysingjar eins og ég og mér finnst oft mjög gaman að fylgjast með þeim. Sérstaklega ef þetta eru heimilishundar, en villihundarnir eru varari um sig og eru mjög sniðugir að lifa af. Hundar lifa stutt hérna í Thailandi. Mjög margir verða fyrir bíl og hef ég margoft þurft að keyra fram á hunda sem hafa endað líf sitt fyrir bílnum, bæði á hraðbrautum og inni í borgum. Ég man í einni ferðinni var lítill hundur tekinn inn á heimilið. Hann átti líka að vera leikfélagi krakkana og sjálfur hafði ég gaman af því að fylgjast með honum stækka og þroskast á hverjum degi. En þegar ég vaknaði einn morguninn var hann horfinn. Enginn vissi hvert hann hafði farið, enda var mjög líklegt að hann hafði týnst í skóginum eða orðið fyrir bíl. Ég leitaði hans næstu daga, en fann ekki. Og í hvert sinn sem ég kem í sveitina eru komnir nýjir hundar í stóra húsið. Ég spyr hvað hefði orðið um þá gömlu, en þá fer fólkið að klóra sér í hausnum og man ekki hver örlög þeirra urðu. Nær allir hundar hérna ganga lausir. Þeir sem ekki gera það eru þá sérstakir varðhundar, sterkir og stórir sem geta auðvitað verið stórhættulegir, en svo eru það litlu kjölturakkarnir sem eru líkari hundum á Íslandi, þs eru bundnir við heimilið. Mú Bing var einmitt svona hundur og hann var keyptur til að vera leikfélagi hennar Nong Beng, en það lenti því á fólkinu í stóra húsinu að sjá um hann. Þegar við mættum á svæðið í byrjun október voru því miklar öfgar í hundamálum fjölskyldunnar. Annars vegar voru hinir stóru og stæðilegu Rottwailerhundar Jennifer og Ronaldo og hins vegar var hún litla Mó Bing sem var í pössun. Allir þrír hundarnir áttu að vera innan girðingar. Síðan fóru þau Jennifer og Ronaldo í sérstakann hundaskóla og verða þar fram yfir áramót. Mó Bing var hins vegar áfram á staðnum þótt enginn vissi í raun hvar hún átti að vera. Mó Bing náði þó að bræða hjarta okkar flestra með sínum fíflalátum, fjöri og lífsgleði.

I

Einn daginn kemur skrítið mál upp. Hún Dúdda móðir Beng & Bach fór með litla Mó Bing í hundaklínik til þess að þrífa hann og snyrta. Þetta tók einhvern tíma og um kvöldið er hundurinn sóttur til Loei og farið með hann heim til Wangsapung. Fjölskyldunni bregður í brún, því það kom í ljós að þetta var ekki rétti hundurinn, heldur allt annar hundur. Hann var einhvernveginn stærri og hreinni og hegðaði sér allt öðruvísi. Núna var hringt mikið milli manna og flestir sem höfðu séð hundinn voru sannfærðir um að hér hafi ruglingur átt sér stað. Haft var samband við hundaklinikið og spurt hvernig þetta hefði gerst, en þeir könnuðust ekki við neitt. Það hafði bara verið einn hundur af þessari tegund hjá þeim og þetta væri rétti hundurinn. Þá var talið að þetta fyrirtæki hafi látið þau fá annan hund, því þessi sem kom til baka var bara venjulegur puddelhundur, en Mó Bing var af sérstakri tegund. Sú tegund kostar um 1500 bath, en venjulegur puddelhundur kostar bara 500 bath, þannig að foreldrar krakkana urðu alveg æfir og vildu fá skýringu. Mér var illilega brugðið og spurði hvort eitthvað væri hægt að gera. Nei ekkert hægt að gera, svona er þetta í Thailandi var svarið. En eigum við bara ekki að heimsækja þetta lið sagði ég og varð foxillur. Maður lætur ekki taka barnið sitt svona frá sér. Nei, ekki voru þau með neinar lausnir. En var þetta hundurinn? Nei ekki sagði Nai og hann var allveg hundarð prósent viss. Hann kom síðan um kvöldið og sýndi okkur hundinn en var þá farinn að efast. Hundurinn tók nú að sýna allar sínar listir og var hann meðal annars fljótur að finna leið í gegnum hliðið sem hann einn þekkti og í ljós kom að þetta var rétti hundurinn. Hann havði jú verið tekinn í gegn og skrúbbaður vel. Um kvöldið hafði hann bara farið í fýlu eða þunglyndi og var ekki sjálfum sér líkur. En nú syndi hann sitt rétta andlit. Ekki veit ég hvort þau Dúdda og Nai báðu hundafólkið afsökunar, en það var mikið hlegið að þessari uppákomu eftirá. Hundurinn var jú gjörbreyttur í útliti.

II

Vanalega þegar við fengum okkur göngutúr frá stóra húsinu um sveitina var Mó Bing vanur að elta okkur. Hann hitti vanalega aðra hunda á leiðinni og lét öllum illum látum, en alltaf kom hann aftur til okkar og var auðvitað samferða heim. Þetta voru samt hættulegar ferðir því Bing kunni ekki að vara sig á bílunum, en það var oft erfitt að reka hann í burtu. Síðustu daga hef ég fengið mér göngu í nýja húsið og hefur hundurinn oft hlaupið á eftir mér þessa rúmlega hundrað metra og komið samferða mér heim. Í morgun þuftum við að fara frá tölvubúðinni til Loei til að kanna pappíra vegna einbýlishússins. Þegar við komum aftur í sveitina, átti ég að taka pallbílinn og koma að hitta systurnar í stóra húsinu í sveitinni. Ég mætti á staðinn en ákvað um tíu leitið að fá mér göngutúr niður í gamla húsið og borða þar nestið mitt, sem ég hafði keypt í 7-11 búðinni í bænum. Mó Bing elti mig og inn í húsið, en síðan heyrði hún í vinum sínum, tveim stórum hundum fyrir utan. Hún tók á rás og elti þá en þeir voru að elta einhvern annan óboðinn hund. Ég heyrði flautað og svo skell og síðan heyri ég bíl snögghemla. Ég hljóp út og fjörtíu metra í burtu sé ég ýlfrandi hund. Ég hafði heyrt þetta angistarýlfur áður í bænum þegar ég keyrði upp á hund sem keyrt hafði verið yfir og félagar hans voru að kveðja hann. Þetta var sama gólið. Ég kom nær og sá að hundurinn lá í blóði sínu og hinir hundarnir að stumra yfir honum. Hundurinn sem lá í blóði sínu var Mó Bing. Bíllinn sem hafði keyrt á hundinn stoppaði en ég virti bílstjórann ekki viðlits. Hefði ekki þýtt neitt því ég vissi að þetta var ekki hans sök. Ein nágranakona okkar var vitni að slysinu og hún sá Mó Bing hlaupa þvert fyrir bílinn og bílstjórinn gat í raun lítið gert. Bílinn var ekki á mikilli ferð. Það voru þung spor að ganga þessa hundrað metra með hundinn í fanginu að bænum og tilkynna um dauða hundsins. Fólkið tók þessu öllu með stillingu, enda daglegt brauð hér um slóðir. Þó var strax hringt í Dúddu móður barnana og þau sótt í leikskólann til að kveðja hundinn. Hann var svo jarðaður rétt fyrir klukkan ellefu í morgun á lóðinni sem Nai er að smíða sumarhúsið. Saman grófum við holuna og síðan lagði ég hann í hana og síðan var mokað yfir. Síðan var kveikt á tveim kertum og blóm lagt á leiðið. Ég get ekki varist þeirri hugsun að velta fyrir mér hvers vegna ég var staddur á þessum degi á þessari mínútu í sveitinni. Af hverju var ég að þvælast þetta niðrí hús til að borða súpuna mína. Hvers vegna passaði ég ekki betur upp á dýrið. Í raun var tíkin alltaf í semi-gæslu. Hún hefði í raun átt að vera með ól og vera bundin, en þetta er auðvitað bara vangaveltur. Ég er samt í dag fullur sektarkenndar og finnst ég bera mikla sök. Ég þótti líka orði svo vænt um dýrið og hafði hugsað mér að bjóðast til að sjá um hana meðan ég dveldi hérna. Ég veit að í dag er fullveldisdagurinn 1. desember og litli Tiger er 5. mánaða gamall. Við ætlum að halda upp á daginn í kvöld, en það er þungt i manni og maður hefði frekar viljað sofa út í morgun. Ég veit að flestir hundavinir skilja mig, en aðrir hrista bara hausinn. Fyrri myndin var tekin í gær, þegar við röltum öll saman í húsið, en seinni var tekin á hádegi í dag.
(seinni myndin á að vera af leiði Mó Bings)