Sunday, October 29, 2006

WangSaphung

Ég bý í litlu þorpi sem heitir Wangsaphung, en engin hérna virðist vita hversu margir búa hérna. Ef ég á að setja þennan bæ í íslenskt samhengi þá gæti hann verið á stærð við Dalvík. Í um 20. km fjarlægð frá bænum er svo Loei, en hann er sirka á stærð við Akureyri. Þangað sækir maður eiginlega alla afþreyingu, m.a er þarna gay-gymmið, góð hótel, fínir veitingastaðir og mannlíf. Enn lengra burtu er svo stórborgir eins og Khon Kaen, Nong Khai og Udon Thani. Við fórum einmitt í verslunarferð til Udon Thani í dag, en þar fékk ég algert kaupæði og keypti mér m.a litla myndavél og hljómflutningstæki. Annars er Udon Thani á stærð við Reykjavík, en með öllum úthverfum er hún örugglega mun fjölmennari. Wangsaphung er eins og áður sagði sennilega á stærð við Dalvík og í raun virkar bærinn á mig eins og frumskógur, sem er búið að leggja veg í gegnum þvers og krus. Í miðbænum sjálfum má m.a finna "eyjar", þar sem eru stór ónýtt svæði, en við búum hins vegar í "101 svæðinu" þeirra, þar sem Deng lét byggja lítið einbýlishús, en foreldrar hennar reka þar nú litla kjörbúð. Ég hef meira að segja þurft að afgreiða litla stráka um sælgæti, en hef ekki tekið nein laun fyrir, enda myndi ég eflaust missa fæðingarorlofið, ef það sannaðist á mig. Eins gott að fæðingarorlofssjóður fari ekki að skipta sér af þessari "vinnu", því þá verð ég alveg tekjulaus. Wangsaphung er að mörgu leiti yndislegur lítill bær og ekkert um að vera nema einhverjir útimarkaðir, sem selja hrísgrjón. Allir eru að bjarga sér með því að vera í einhverju harki. Mjög svo drungalegt er þarna um að litast þegar fer að skyggja á kvöldin, en foreldrar hennar hafa líka aðsetur á stóra óðalssetrinu, sem er í um 10 mínútna akstursfjarlægð frá miðbænum, en þar er í raun alvöru sveitastemming á kvöldin, því þar er hægt að rekast á spordreka, slöngur og ýmislegt annað miður fallegt sem fylgir oft "sveitasælunni". Annars var nú ástæða fyrir því að ég fékk mér þessa myndavél, því ég var svo upp með mér af nýja teljaranum í blogginu, sem sýnir að menn frá hinum ýmsu löndum eru að detta inn, því á örfáum dögum hafa komið gestir frá sextán löndum inn á síðuna, m.a frá Singapore, Rúmeníu, Peru, Makedóníu, Ástralíu, Austuríki, Spáni osf. Þessvegna keypti ég myndavélina til að geta haldið áfram að gera litlar videoklippur fyrir þessa "aðdáendur" mína. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá götuna "mína", en þar fór einmitt allt á flot um daginn, vegna afleiðinga flóðanna, en víða í landinu er ennþá mikið hættuástand, þótt rigningatímabilinu hérna sé formlega lokið og besti árstíminn genginn í garð. Fínt að vera hérna í sveitinni. Eina fólkið sem hefur verið að tala um valdarán og póitík hafa verið Íslendingar sem ég hef hitt á netinu. Hér hefur hefur hinsvegar ekki nokkur maður minnst orði pólitík eða stjórnmálin í Bangkok. Það væri þó fínt að eyða einni nótt í Bangkok eftir alla "sveitasæluna".

Thursday, October 26, 2006

Smá breytingar

Ég var að gera tilraun með að setja upp nýjan teljara, en mig hefur lengi langað að setja þennan upp. Hann er frá NeoCounter og sínir hverjir það eru sem eru að skoða bloggið, hverjir eru inni og fáni viðkomandi lands. Reyndar kom það mér dálítið á óvart að einhver í Rúmeníu er að detta inn á bloggið, en það gæti líka átt sínar skýringar. Teljarinn virðist telja alla þá sem koma inn á svörtu og hvítu síðuna og líka inn á síðuna hjá Viktoríu, en þetta er samt allt í raun útibú frá sömu síðunni, en teljarinn virðist ekki telja sjálfstætt, því ég er skráður fyrir þessum þrem bloggsíðum. Hvíta síðan er í raun bara copy af svörtu, en bara annar litur. Vikoríu síða er hins vegar síða sem ég stofnaði fyrir Viktoríu frænku mína. Teljarinn er furðu nákvæmur, en ég er þegar búinn að rekast á þá skekkju að þótt ég sé staddur í Norður Thailandi, þá kemur merki frá Hong Kong upp hjá sjálfum mér líka þegar ég er að skoða aðrar síður. Fer að halda að serverinn fyrir "okkur" Norður-Thailendinga sé staðsettur í Hong Kong. Síðan setti ég upp nýja klukku, sem Óli Thai benti mér á, en klukkan er líka hitamælir. Setti hana (klukkuna) upp fyrir bæði Reykjavík og Loei, en þá er hægt að sjá klukkuna og hitann á báðum stöðum í einu. Reyndar virðist klukkan ekki alltaf ganga rétt, en hitamælirinn virðist vera í fínu lagi. Gaman að sjá muninn, sérstaklega þegar fer að kólna meira á Íslandi.

Hrikalegur

Tryllirinn var ekki einn að æfa í dag heldur er sjálfur Magnús "Stórfyrirferð" Korntop byrjaður að æfa að nýju !!!!! Í dag var fyrsti dagurinn hjá honum. Gott hjá Korntoppnum að vera loksins kominn af stað. Korntoppurinn vigtaðist 232 kg og var það minna en í fyrstu var talið.
(Af bloggsíðu Tryllis)

Tuesday, October 24, 2006

Meira af boxi

Maður hefur engan sérstakan áhuga á boxi lengur, enda má segja að maður hafi séð þá bestu live. Maður hafði gaman af Tyson tímabilinu, en núna nennir maður varla að horfa á þetta lengur, en við Narfi fórum í tvær pílagrímaferðir, en sú fyrri var til New York árið 2000 (þar sem maður sá líka WTC í síðasta sinn), þar sem við sáum Lennox Lewis mala Michael Grant, en sú síðari var á Parken í Köben, þar sem við sáum Mike Tyson rétt merja "stórstjörnuna" Brian Nielsen. Síðan var reynt að hitta Tyson sjálfan með því að sitja fyrir honum á SAS Radison hótelinu í miðbæ Köben, en því miður var Tyson ekkert að dvelja á því hóteli, því hann hafði farið á SAS hótelið sem er á Amager. En við náðum að hitta annan ungan mann Joe Calzage , en við sáum hann einmitt í upphitun fyrir Tyson. Annars sá ég á CNN hérna að það eru gömlu Sovétríkin (Hvíta-Rússland, Úkraína, Kazakhstan og Rússland), sem eiga alla heimsmeistara í þungavikt hjá stóru samböndunum. Það eru þeir, Serguei Lyakhovich (WBO), Wladimir Klitsckho (IBF), Oleg Maskaev (WBC) og Nicolay Valuev (WBA). Nicolay þessi er víst stærsti heimsmeistari sögunar, aðeins 214 cm hár. Hann varði víst titil sinn um daginn, en áður hafði hann unnið John Ruiz í mjög umdeildum bardaga, en ég sá hann einmitt á Sýn. Bubbi hafði um þetta stór orð, enda fannst flestum að að Ruiz hefði átt að vinna, en það var einhver maðkur í mysunni. Tyson ætti ennþá möguleika gegn þessu trölli, sem er nýjasta "fríkið" hans Don King. Annars veit ég ekkert um þetta, annað en að allir þungaviktameistararnir í dag eru rússneskumælandi Ivan Dragóar. Annars benti Jarlinn mér á nýja danska súperstjörnu, sem á að fara berjast við Joe Calzaghe (manninn sem við hittum óvart í Köben), en sá danski heitir, Mikkel Kessler. Kessler þessi er núverandi heimsmeistari WBC sambandsins í Super Middleweight, en Joe Calzaghe er meistari hjá WBO og IPF.











Monday, October 23, 2006

Tyson er fundinn

Mike Tyson er kominn aftur í hringinn. Ég las það meira að segja í Bangkok Post (ensku) að hann hefði farið í léttan sýningabardaga við Cory Sanders, sem mig minnir að hafi unnið annan Klitschko bróðirinn hérna um árið. Ekki er víst að Tyson komi aftur í hringinn, en ég sá reyndar í sama blaði að Joe Frazier (sá sem barðist við Ali fyrir 30. árum) ætlaði í sýningabardaga fljótlega við annan gamingja. Annars var greinin um Frazier mun stærri en fréttin um Tyson, en Fraizer þessi er mjög líkur Tyson að mörgu leiti, bæði í útliti og í hringnum. Fraizer hefur eins og Tyson sólundað öllum auðæfum sínum og ólíkt samtímamönnum sínum eins og Larry Holmes og Ali, sem eru moldríkir. Í viðtalinu koma fram að Frazier hefði átt að vinna alla þrjá bardagan við Ali á sínum tíma, líka þennan fræga í Manila, sem talinn er bardagi aldarinnar af mörgum boxspekingum. Það kom vel fram í viðtalinu hversu mikil togstreita ríkti alltaf á milli Ali og Frazier og gerði Ali stöðugt grín að Frazier og kallaði hann meðal annars górillu. Þótt þeir hafi verið svarnir fjandmenn á sínum tíma, þá birtist með viðtalinu mynd af þeim félögum saman, sennilega tekin þegar dætur þeirra börðust nýlega. Ali sagði alltaf að Frazier hefði ekki verið neitt án sín, en Fraizer sluttar þessar grein með að segja að Ali hefði ekki verið neitt nema vegna þess að hann barðist við hann á sínum tíma. Þetta las ég allt í Bangkok-tíðindum eftir æfinguna í hótel"gymminu". Í sama blaði sá ég áberandi frétt sem hljóðaði svo: Iceland kill first fin whale! Ég fór síðan "heim" og beint á netið til að leita af þessum fréttum, en endaði svo í viku gjafaáskrift af sjö blöðum, þau eru, New York Post, The Sun, El-MUNDO, USA TODAY, Bangkok Post og Morgunblaðið! Hverslags rugl er þetta eiginlega.

Sunday, October 22, 2006

EL CLASICO

Þar sem leikur Real Madrid og Barcelona verður á eftir ætla ég að plata liðið á Kinghótelið, þar sem ég get vonandi horft á leikinn í kvöld (nótt). Ég var að sjá á spænskum miðlum að Eiður Smári væri í byrjunarliðinu. Trúi því eiginlega ekki eftir framistöðu hans gegn Chelsea. En hvað um það ég fékk mér Sýn í sveitinni. Já, þetta er ótrúlegt að getað pantað Sýn á netinu, en því miður sýna þeir ekki þennan leik á netinu. En ég get valið úr mörgum góðum leikju sem eru búnir og eru væntanlegir í Meistaradeildinni auk margs annars. Meðal annar horfði ég á Nördana í gær, en þessar útsendingar Sýnar eru ekki í beinni. En þessi leikur EL CLASICO eins og hann er kallaður ekki sýndur á VEfTV. Ekki einu sinni endusýndur. Þannig að ég fer bara á hótelið með Tiger og Deng. Fínt að skreppa á Kinghótelið. Áfram Barca.

Saturday, October 21, 2006

Thailenska með myndum

Ég mun aldrei gefast upp að reyna að læra málið. Hingað til hef ég ekki lagt allt í þetta, en er samt ákveðinn að hella mér út í þetta. Í stórborgunum er hægt að fara í alvöru skóla, en hérna er það ekki eins auðvelt. Ég gæti verið búinn að læra c.a fjögur evrópumál á sama tíma og maður lærir sama hrafl í þessu máli. Maður myndi læra jafnmikið í rússnesku, spænsku, portúgölsku & hollensku á sama tíma og maður væri að læra Thai. Þá er ég bara að tala um að byrja að bulla og bjarga sér. Eigum við ekki segja að ég sé byrjaður og úr því að Jón Rotari í Kolaportinu gat byrjað að tala á sextugsaldri, þá ætti ég að geta það líka. Ég veit það bara að ég var farinn að tala spænskuna eftir mánuð á Spáni og því fullyrði ég þetta að thailenskan er fjörum sinnum erfiðari að læra. Tælenskan er tónamál, með fimm tónum og til dæmis getur orðið "maa" haft fimm mismunandi merkingar eftir því í hvaða tón orðið er sagt, m.a hestur, hundur osf. Það er ekki það verst, heldur er stafrófið skelfilegt. Fyrir utan að líta öðruvísi út, þá eru stafirnir um 76 talsins. Meðan rússneska stafrófið getur verið lært á einum dagi, tekur mánuð að læra þetta stafróf. En auðvitað er best að byrja að læra eins og barn. Byrja bara á byrjuninni og læra það einfaldasta af myndum.
Tælenska af myndum














hong soo khaa joot soot tai (Last stop for toilet)

Friday, October 20, 2006

YouTube

Þessi vefur YouTube er nokkuð skemmtilegur. Ætla að setja inn einhverjar klippur á næstu dögum. En eins og allt sem verður vinsælt, þá má finna allt það besta og allt það verzta í tilveru vorri. Ég er því miður ekki með réttu græjurnar, en er að vinna í því máli. Var þó byrjaður að setja inn myndir heima. Hér eru dæmi um nokkur skemmtileg myndbrot af vefnum YouTube, en hér er auðvitað bara lítið brot af milljónum myndskeiða.
1. Tölvutryllir bætir sig í deddi
2. Binnster bætir sig í bekk
3. Feitasti köttur í heimi

Thursday, October 19, 2006

"Sveitasæla"

Þá er maður víst búinn að koma sér fyrir hérna á "skrifstofunni" heima. Internetið er klárt og skrifborðið. Munar öllu að geta setið við tölvuna og verið eins og heima hjá sér. Það er nefnilega mín skoðun að ef maður ætlar í frí, þá verður maður að hafa það svipað eða betra, en heima hjá sér. Annars er ég svo sem ekkert í fríi. Ég fæ borgað fyrir að vera með stráknum, en það er víst kallað að vera í fæðingarorlofi. Mjög skemmtilegt starf og það heldur manni gangandi, því maður verður líka að hafa eitthvað fyrir stafni annað en að svitna í hitanum. Hef líka skroppið í "ræktina" og reyni að mæta þrivar í viku. Hef ekki látið bjóða mér áður að æfa í þessu "gymmi" en hef þá frekar farið í sund, sem er auðvitað á sama stað. En núna ákvað ég að prófa. Það er samt ótrúlegt sem hægt er að gera við svona "krypplinga" þyngdir. Þar sem ég get ekki sett meira en 80. kg á stöngina verður maður að hugsa allt upp á nýtt. Núna tekur maður fleirri og fjölbreyttari æfingar, sem maður hefur ekki snert á í mörg ár og í mörgum þessum æfingum eru 80 kg mikil þyngd. Handlóðin eru ekki heldur þung, en samt lætur maður sig hafa þetta. Man alltaf eftir einum sem æfði í Orkulind fyrir mörgum árum. Hann tók alltaf æfingarnar á sérstakan hátt, æfði alltaf létt, en hægt. Hann var kallaður "Rakarinn", en þótt hann æfði bara með léttum þyngdum var hann (og er sennilega ennþá) helmingi breiðari en ég. Svo verður maður hugsað til Charles Atlas, sem æfði bara með eigin líkama, kallað Atlas kerfið. Sennilega mesta blöff sem til var, en...

Tuesday, October 17, 2006

Loksins

Loksins er internettengingin komin í húsið, því ég var gjörsamlega að sturlast. Ekki þannig að maður væri að geðtruflast, heldur þarf maður víst að vera í sambandi við umheiminn. Eða það finnst mér að minnsta kosti. Hér hafa verið mikið um flóð og rigningar eins og áður hefur komið fram, en nú er þessu blessunarlega lokið og besti árstíminn að hefjast, þar sem hitinn lækkar og loftið verður þurrara. Manni varð þó ekki um sel þegar vatnið fór að renna um götuna mína. Það voru afleiðingar flóðana, því hleypt hafði verið úr lóni, sem var að flæða yfir, en í þessu grugguga vatni voru víst bæði fiskar og blóðsugur. Samt léku börnin sér þarna og maður sjálfur varð að vaða þennan skít af illri nauðsyn. Þar sem ég er núna sítengdur geta menn náð í mig með:
MSN: gfr@islandia.is
skype: gunnarrunarss
nýr sími: (0066)850661

Frændur og frænkur

Tuesday, October 10, 2006

Rigningar

Á Íslandi hafa menn miklar áhyggjur af stjórnarfarinu hér úti, en i sveitinni hafa menn meiri áhyggjur af flóðum og rigningum. Hér er meira og minna allt á floti, en á öðrum stöðum í landinu er ástandið enn verra. Hér má sjá umhverfið i kringum aðal hótelið í Loei. Svo eru það hundarnir hérna i Thai. Þeir eru alvöru. Það fer enginn í gegnum þá hérna og með þeim getum vid verið örugg með þann litla. Ég þarf reyndar að kynnast þeim aðeins betur því þeir urra vel á mig, en þetta eru svakalegir varðhundar, þeir Ronaldo og Jennifer. (reyndar hvolpar á mynd)

Friday, October 06, 2006

Bekkurinn

Svo fór maður á Fógetamótið í bekkpressu og endaði á að taka heiðurslyftu, en hafði upphaflega ætlað að keppa í mótinu sjálfu. Narfi bróðir gifti sig sama dag, þannig að ekkert varð úr keppni af minni hálfu sem betur fer, því ég hafði koðnað niður síðustu vikurnar. Ég hefði ekki tekið meira á kjötinu, en í lok júlí en þá tók ég 160 kg. Eftir giftinguna fór maður heim og pakkaði og kíkti svo í hina frægu Vestugötuvillu, þar sem haldið var míní-kveðjuhóf mér til heiðurs. Daginn eftir varð flogið til Thai. Nú er það hins vegar spurninginn hvort maður sér endanlega búinn að missa áhuga á að keppa í sportinu. Menn sem eru að lyfta af alvöru lyfta miklu meiri þyngdum en ég geri i dag. Þeir Ísleifur, Binnster og Fannar, svo einhverjir séu nefndir stóðu sig mjög vel á mótinu. Þetta eru menn sem hafa það sem þarf til að ná árangri. Enn aðrir þurfa bara´að horfa á handleggina til að þeir stækki. Þannig er Baldvin Bekkur að guði gerður. Hrikalegur alltaf, þótt hann sé löngu hættu að keppa og æfa og lyftir samt miklu meira, en ég. Er þá ekki betra að snúa sér að öðru?














Tuesday, October 03, 2006

Við erum

Við erum komin til Thai. Ferðin út gekk alveg ótrúlega vel og við stoppuðum rétt rúmlega klukkutíma í Köben áður en haldið var áfram til Bangkok. Það er ótrúlega stutt stopp. Fórum beint á besta hótelið á Pattaya (og öllu landinu) sem heitir Welcome Plaza. Þar erum við í risasvítu og borgum einungis 200 bath meira fyrir nóttina. Annars borgar að spara þegar maður ætlar að vera í einhvern tíma, en þessi svíta er svo góð að ég vil helst ekki fara í venjulegt herbergi aftur. Þetta hótel er reyndar mjög umdeilt því Sparimeistarinn sjálfur líkaði engan vegin við staðinn og fannst hótelið frekar ógeðslegt, en þess ber að geta að Spari hefur allt annan skítastuðul en venjulegir menn. Annars líkar Sigurði Rúnari lífið vel og hér fær hann mikla athygli, því tælendingar eru ákaflega barngóðir.